Innlent

"Hryðjuverk ekki skipulögð í moskum"

Una Sighvatsdóttir skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson hefur nú í tvígang á einni viku varað við því í útvarpsviðtölum að Sádi Arabía skipti sér af trúmálum á Íslandi. Fyrst í Bítinu á Bylgjunni og svo aftur á Rás2 í morgun.

Með þessu á forsetinn við fjárstyrk sem sendiherra Sádi-Arabíu tjáði honum að myndi renna til byggingar íslenskrar mosku. Félag múslíma á Íslandi hefur ekki þegið fjárstyrk frá Sádi Arabíu vegna fyrirhugaðrar mosku en Sverrir Agnarsson, fyrrverandi formaður þess, segir að jafnvel þó svo væri þá þýddi það ekki aukna hryðjuverkaógn.



„Þó svo væri, þá eru hryðjuverk ekki skipulögð í moskum, það vita allir sem hafa kannað íslam í Evrópu. Bræðurnir tveir til dæmis sem eru taldir höfuðpaurarnir í þessari árás í París, þeir seldu bar til að fjármagna þessi hryðjuverk. Og þeir sem koma í moskur reka yfirleitt ekki bari."



Isis eins og múslímskir nasistar

Sverrir segir að markmið illvirkjanna séu ekki trúarlegs eðlis. „Isis er hreinlega að reyna að ýta undir borgarastyrjöld í Frakklandi. Ég held að Frakkland, Þýskaland og mögulega Belgía séu skotmörkin vegna þess að þar gætirðu komið af stað borgarastyrjöld milli fólks af alsírskum uppruna og Frakka."

Hann telur hinsvegar að lítill jarðvegur sé fyrir stefnu öfgamanna meðal evrópskra múslíma. „Sádiarabíska útgáfan af íslam, hún kemur aldrei til með að höfða til Íslendinga. Hún höfðar ekki til Evrópubúa af múslímskum uppruna. Það er engin sérstök fylgni við þetta.

Isis-liðar séu í raun eins og múslímskir nasistar. „Ég held að það sé minni hljómgrunnur fyrir þessum nasisma frá Isis meðal múslíma í Evrópu heldur en var fyrir nasismanum í Evrópu á sínum tíma."

Ekki ráðist að rót vandans

Sverrir segir jafnframt að með viðbrögðum Vesturlanda við hryðjuverkunum í París, sem felst í auknum loftárásum á Sýrland, sé ekki ráðist að rót vandans, sjúkdómurinn sé ekki upprættur heldur einkennin.

„Uppruni þessara átaka er hundrað ára gamall frá samkomulagi milli Frakka og Breta þar sem þeir skiptu svæðinu upp á milli sín á mjög sérkennilegan hátt. Drógu landamæri sem ekki passa. Og svo koma Bandaríki inn í gegnum Ísrael. Það eru átök þessara ríkja á svæðinu sem eru aðaorsökin. Síðan er verið að tala um spillta stjórnendur og fallin ríki, en allir þessi stjórnendur og þessi ríku hefur verið viðhaldið af okkar fjármagni og okkar pólitísku hagsmunum."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×