Handbolti

"Hefurðu pælt í að heita bara Gei Sveinsson? | Sjáðu Jóa G. grilla í landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann G. Jóhannsson, leikari og velgjörðarmaður handboltans á Íslandi, var að auglýsa landsleik karlaliðsins gegn Portúgal á sunnudaginn á NOVA-snappinu í gær.

Strákarnir okkar mæta Portúgal heima og að heiman í umspilsleikjum en sigurvegarinn í rimmunni fær farseðil á heimsmeistaramótið í Frakklandi 2017. Ísland hefur ekki misst af HM síðan liðinu mistókst að komast á HM 2009 í Króatíu. Fyrri leikur strákanna gegn Portúgal fer fram á sunnudaginn í Laugardalshöll og hefst klukkan 17.00.

Jói G var einnig með NOVA-snappið í fyrradag og var þá að bjóða forsetaframbjóðendum á völlinn og fá þá til að taka þátt í sláarkeppni. Í gær bauð hann Andra Snæ Magnasyni, sem ætlar að taka þátt, og Höllu Tómasdóttur.

Hann fór svo á æfingu til strákanna og sagðist ætla að taka þá aðeins niður úr skýjunum. Jói tók stutt viðtöl við Guðjón Val Sigurðsson, Arnór Þór Gunnarsson, Vigni Svavarsson, Geir Sveinsson og Aron Pálmarsson.

„Hefurðu pælt í að stytta nafnið í Gei Sveinsson,“ var spurning sem hann skellti á landsliðsþjálfarann og svo vildi hann fá að vita frá Arnóri Þór hvernig bróðir hans, Aron Einar, hefði það með karlalandsliðinu í fótbolta.

Jói tók svo Aron Pálmarsson aðeins í bakaríið áður en einn besti handboltamaður í heimi þrumaði boltanum í slána í fyrstu tilraun.

Þetta skemmtilegu Snap-sögu má sjá hér að ofan. Strákarnir halda áfram að hita upp fyrir leikinn á Snappinu „strakarnirokkar“ og þá má finna Jóa G á „joijohannsson“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×