Lífið

„Hataðasti maður landsins“ íhugar að birta myndböndin aftur

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Kanadíski þáttagerðarmaðurinn Andrew Lindy segist harma áhrifin sem þátturinn hans Travel Bum hafði á sálarlíf þeirra stúlkna sem voru til viðtals. Lindy biðst afsökunar á öllu saman. En að sama skapi íhugar hann að klippa myndböndin til eða hylja meira af líkömum íslensku stúlknanna svo að myndböndin af þeim fái að vera á Youtube.

Tilgangurinn ekki að gera lítið úr kvenfólki

Hann var í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun. Hann sagði að tilgangur sinn hafi aldrei verið að gera lítið úr kvenfólki og sagðist hafa tekið myndböndin, sem sýna tvær íslenskar stúlkur naktar, af Youtube.

Lindy, sem var hér á landi í tæpa 20 daga á síðasti ári, kryfjar íslensku þjóðarsálinu í viðtalinu:

„Ég vil fá að biðjast afsökunnar. En að því sögðu nú skil ég hversu viðkvæmt fólk er. Og hversu viðkvæmt samfélagið er. Fólk er náið og tengt. [..] Svo virðist sem þetta mál hafi haft áhrif á þau tengsl. Það er það síðasta sem ég vildi gera."

Afsökunarbeiðni Lindy náði til allra Íslendinga.

Leikkonan Margrét Ásta er ein af þeim stúlkum sem birtast í myndbandinu.
Showtime ber ábyrgð á nektinni

Lindy var spurður út í tímarammann sem þátturinn nær yfir. Í þættinum lítur út fyrir að Lindy hafi kynnst leikonunni Margréti Ástu á Prikinu og þau farið heim saman það kvöld. Sannleikurinn er aftur á móti annar, atriðin í þættinum voru tekin upp á tæplega tveggja ára tímabili.

Lindy segir ástæðuna hafa verið að bandaríska sjónvarpsstöðin Showtime hafi ætlað að kaupa þáttinn með það fyrir augum að sýna hann. Hann segir aðstandendur sjónvarpsstöðvarinnar hafa krafist þess að meiri nekt væri í þættinum. Þess vegna hafi hann fengið Margréti Ástu til Kanada og þau tekið upp fleiri atriði fyrir þáttinn, með það fyrir augum að hann færi á Showtime. Lindy sagðist hafa notað skot af henni dansandi fáklæddri, sem Margrét hefur áður sagt að hafi aldrei átt að birtast, því aðstandendur Showtime hafi viljað það. Hann sagði ekkert um það af hverju hann hefði haft nektina áfram í þáttunum þegar hann birti þá á Youtube, eftir að Showtime hætti við að kaupa þáttinn.

Hér má sjá skjáskot úr myndbandinu, þar sem Lindy myndar fólk í miðbæ Reykjavíkur.
Þetta er frásögn

Kanadamaðurinn var spurður hvort að hann skilji afstöðu Margrétar sem er sýnd í öðru ljósi en sannleikurinn segir til um; að hún hafi farið með honum heim í fyrsta skiptið sem þau hittust.

„Reynsla mín af Íslandi, sem þú getur séð á myndböndunum mínum, er sú að ég fór út í þrjú kvöld og náði að tengjast þremur mismunandi stúlkum á náinn hátt. Þetta er frásögn. Þetta er mín leið að segja hvernig hlutirnir eru."

Hann segir Ísland ólíkan öllum öðrum stöðum sem hann hefur komið til, að þessu leyti. Alltaf sé hægt að tengjast einhevrjum. „Þarna ríkir alvöru frjálslyndi. Ég er ekki að segja að fólk sé „auðvelt“. Hvað er að því að uppfylla kynferðislegar hvatir sínar?"

Íhugar að birta myndböndin aftur

Lindy segist harma að samband hans við stúlkurnar í myndbandinu sé nú ónýtt. Hann hélt tengslum við þær eftir að tökum lauk, en þau tengsl eru nú rofin, eftir að hann birti myndbandið. Hann segist einnig harma það hversu mikið hefur verið ráðist á hann. Hann segist hafa fengið hatursfull skilaboð frá Íslendingum. „En ég vona að úr því að ég er svona hataður að þær fái stuðning."

Þegar Lindy var spurður hvort að hann ætlaði að setja myndböndin af stúlkunum upp aftur segist hann íhuga það. Hann segist hafa skriflegt samþykki stúlknanna og gerir því lítið úr því að þurfa samþykki þeirra til að birta þáttinn núna. Hann segir þáttin vera spegil fyrir íslensku þjóðina sem geti verið hollt að líta í auk þess sem myndböndin hans gefi Íslendingum tækifæri á að sjá hvað erlendum gesti finnist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×