Enski boltinn

„Hann er ekki bara kallaður sonur minn lengur og því fagna ég“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manchester United stendur enn og aftur á markvarðatímamótum. Ansi líklegt er að David De Gea verði seldur til Real Madrid í sumar, en markvarðarstaðan er að losna á Bernabéu.

United gekk erfiðlega að leysa Peter Schmeichel af hólmi þegar hann hætti eftir þrennutímabilið 1999 og þá tók það áhættuna á ungum David De Gea eftir að Edvin Van der Sar hætti.

Annar Schmeichel í marki United?

Peter Schmeichel kom 28 ára gamall til Manchester United árið 1991, en sonur hans, Kasper Schmeichel, er 28 ára og er einn af betri markvörðum ensku úrvalsdeildarinnar.

Hvort annar Schmeichel standi í markinu hjá United næsta vetur á eftir að koma í ljós, en ljóst er að Kasper hefur farið sínar eigin leiðir.

„Við tókum meðvitaða ákvörðun um að ég væri bara pabbi hans, en ekki neinn ráðgjafi. Við ræðum ekki hans mál og mér líkar það vel. Auðvitað er hann besti markvörður í heimi ef þú spyrð mig. Hann er sonur minn,“ segir Peter Schmeichel í frábæru og sjaldgæfu viðtali við þá tvo í þættinum Premier League World sem sýndur er á Stöð 2 Sport 2 í hverri viku.

Fór í neðri deildirnar

Kasper fékk tækifæri með Manchester City ungur að aldri, en þegar honum var skellt á bekkinn þar fór hann á lán um neðri deildir Englands og svo til Skotlands.

Sumarið 2009 færði hann sig til Notts County í D-deildinni og var kjörinn markvörður ársins, en árið eftir var hann hjá Leeds í C-deildinni og var aftur kjörinn markvörður ársins.

Hann hefur spilað með Leicester síðan 2011 og átti stórgott tímabil með nýliðunum, sérstaklega seinni hlutann þegar Leicester bjargaði sér frá falli.

Alltaf líkt við pabba

„Hann gerir sig stóran þarna. Þetta minnir nú á annan ljóshærðan Dana með svipað nafn,“ er eitt af því sem lýsendur í ensku úrvalsdeildinni sögðu í vetur þegar hann varði skot.

Eðlilega er honum oft líkt við föður sinn og þeir bornir saman. Peter er þó feginn að það sé meira og minna hætt.

„Hann er ekki bara kallaður sonur minn lengur og því fagna ég. Hann er sinn eigin maður og ég er rosalega stoltur af honum,“ segir Peter Schmeichel.

Innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×