Innlent

"Forsetinn tekur að sér að verða gæslumaður ríkisstjórnarinnar“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Björg Thorarensen er prófessor í stjórnskipunarrétti.
Björg Thorarensen er prófessor í stjórnskipunarrétti.
Björg Thorarensen prófessor í stjórnskipunarrétti segir ákvörðun forseta Íslands um að neita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra um heimild til þingrofs fordæmislausa og óvenjulega. Þetta sagði hún í beinni útsendingu á RÚV nú klukkan eitt. 

Eins og fram hefur komið kom Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta lýðveldisins nú í hádeginu. Erindið var að biðja um heimild til þingrofs, nú eða síðar. Ólafur Ragnar hafnaði beiðninni eins og greint hefur verið frá á Vísi.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti á Bessastöðum í dag.Vísir/Anton Brink
„Ég myndi segja að forsetinn stígi þarna með mjög afgerandi hætti inn á pólitískan vettvang. Ég þekki ekki dæmi þess að forsetinn hafi formlega og með rökstuddri afstöðu hafnað ósk um þingrof. Mér sýnist það að forseti taki sér það hlutverk að ganga og gæta hagsmuna meirihluta þingsins vegna þess að hann telur að forsætisráðherra hafi ekki stuðning á bakvið þessa tillögu um þingrof eins og hann ber hana fram.“ 

Björg segir þetta í meira lagi óvenjulegt. Hún segir jafnframt að ekki hæfi að vísa til sögunnar í þessu samhengi eftir breytingu á lögum um stjórnskipun. Þingið sjálft getur brugðist við ef forsætisráðherra gengur gegn vilja meirihluta þingsins. „Þótt að þing yrði rofið þá myndi það sitja áfram og takast á við pólitískar afleiðingar af þessari mjög svo óvenjulegu tillögu sem kemur fram frá forsætisráðherra.“

„Forsetinn hér tekur að sér að verða gæslumaður ríkisstjórnarinnar.“

Þá sagði Björg ómögulegt að spá fyrir um framtíð ríkisstjórnar Íslands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×