Fótbolti

„Fannst svo geðveikt töff að sjá Kára Kristján og Robba Gunn vel skeggjaða á stórmóti“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þrír vel skeggjaðir og flottir landsliðsmenn.
Þrír vel skeggjaðir og flottir landsliðsmenn. vísir/eva björk/Vilhelm/epa
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, er orðinn vel þekktur á Evrópumótinu í Frakklandi fyrir sinn mikla og glæsilega skeggvöxt.

Talað er um Akureyringinn sem sannan víking og þá sérstaklega þegar hann leiðir íslensku þjóðina í víkingakallinu sem nánast allir stærstu fjölmiðlar heims hafa fjallað um.

Aron settist niður með íslenskum fjölmiðlum í dag og var spurður út í skeggvöxtinn. Hann sagðist ekki vera búinn að ákveða hvenær það yrði rakað af en það stóð alltaf til hjá honum að líta svona út á EM 2016.

„Mér fannst alltaf svo geðveikt töff að sjá Kára Kristján [Kristjánsson] og Robba Gunn [Róbert Gunnarsson] vel skeggjaða á stórmóti að halda uppi heiðri víkingaútlitsins. Þannig stal ég hugmyndinni af þeim og þetta hefur gengið eftir,“ sagði Aron hress og kátur.

Fyrirliðinn veit ekkert hvenær skeggið fer úr þessu en möguleiki var á að Aron myndi raka það strax eftir átökin gegn Cristiano Ronaldo og félögum í Saint-Étienne.

„Ég ætlaði hugsanlega að raka mig eftir fyrsta leikinn en svo erum við bara ekki búnir að tapa leik. Það er heldur ekkert að fara að gerast núna,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×