Innlent

„Ekki hægt að eiga við svona trega menn“

Atli Ísleifsson skrifar
Sigga á Grund segir margar vinnustundir liggja á bakvið hvert verk.
Sigga á Grund segir margar vinnustundir liggja á bakvið hvert verk. Mynd/Sigga á Grund
„Nú er ég alveg steinhætt. Það er ekkert hægt að eiga við svona trega menn,“ segir listakonan Sigríður Jóna Kristjánsdóttir, betur þekkt sem Sigga á Grund, sem kveðst hætt að sækja um listamannalaun eftir að hafa sótt um fjórtán sinnum og jafnoft verið neitað.

Sigga segist nú byrjuð að hugsa um allt annað. „Nú er ég að hugsa um heiðurslaun listamanna. Þá get ég safnað í sarpinn og bætt við verkum. Það er rennerí af fólki sem bæði kemur hingað heim til mín, sem ég hef mikla ánægju af, og niðri á safni í Tré og list [í Flóahreppi]. Þar eru líka verk frá mér og ég þyrfti endilega að geta bætt við þetta. Ég hef voða lítið púður að bæta við það þegar ég er að vinna fyrir aðra. Þá þarf ég á launum að halda og þess vegna fer ég fram á það að ég fái heiðurslaun listamanna. Sumir fá það.“

Sigga á Grund var í viðtali í Bítinu í morgun þar sem hún ræddi list sína og umsóknir um listamannalaun. „Maður verður svolítið útundan í þessum geira. Þetta er upp á það að geta safnað meira af verkum handa þeim sem vilja sjá verkin mín svo að þau fara ekki út um allt eins og þau hafa gert. Nú langar mig til að hafa þetta heima, hérna heima á safni,“ en hún segir marga koma til hennar á sjá verkin en að hún hafi selt megninu af verkunum frá sér þar sem alltaf sé unnið eftir pöntunum.

Sigga lýsir sjálfri sér sem raunsæislistamanni. „Ég hef unnið mikið eftir þörfum fólksins. Ég veit ekki hvað ég hef ekki verið beðin um. Ég hef getað leyst þessar þrautir alveg ljómandi vel.“

Að sögn Siggu liggja margar vinnustundir liggja á bakvið hvert verk. „Ég er oft með fleiri en eitt verk í gangi í einu á borðinu. Vinnustundirnar eru margar því ég legg mikla vinnu í verkin og þess vegna hef ég líka náð góðum árangri.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×