Innlent

„Ekkert voðalega gott að ræða við fólk sem kallar mann lygara“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, segir það alrangt að Björt framtíð og Viðreisn hefðu átt í viðræðum fyrir kosningar, líkt og Birgitta Jónsdóttir Pírati fullyrti í morgunútvarpi Rásar 2 í gær. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir ummæli Birgittu kjánaleg.

„Hún [Birgitta] fór fram með þau ósannindi að við hefðum ekki verið heiðarleg hvað þennan Lækjarbrekkukvartett varðaði og sagði að við í Bjartri framtíð hefðum verið í bandalagi fyrir kosningar. Það er auðvitað alrangt og mér þykir þetta mjög leitt og óheppilegt,“ sagði Björt í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Aðspurð segir Björt þessi ummæli geta spillt fyrir í mögulegum stjórnarmyndunarviðræðum. „Ja... Það er ekkert voðalega gott að ræða við fólk sem kallar mann lygara.“

Birgitta sagði á Rás 2 í gær að Björt framtíð hefði verið að ræða við Viðreisn á sama tíma og viðræður hefðu átt sér stað á milli stjórnarandstöðuflokkanna á Lækjarbrekku skömmu fyrir kosningar, og að Björt framtíð hefði þannig brotið trúnað.

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, tekur í svipaðan streng og Björt, en að komi til þess að flokkarnir setjist við samningaborðið verði það málefnin sem ráði för.

„Ég held að þau ráði för númer eitt, tvö og þrjú, en auðvitað er svolítið kjánalegt að hlusta á svona innistæðulausar fullyrðingar. Ég held að það hafi blasað við öllum sem fylgdust eitthvað með kosningabaráttunni að það neistaði aðeins á milli okkar og Bjartrar framtíðar,“ segir Þorsteinn.

Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×