Handbolti

"Einstök stund að lyfta bikar í höllinni“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sólveig Lára Kjærnested, fyrirliði Stjörnunnar, og Margrét Katrín Jónsdóttir, fyrirliði Selfoss, með bikarinn sem er í boði um helgina.
Sólveig Lára Kjærnested, fyrirliði Stjörnunnar, og Margrét Katrín Jónsdóttir, fyrirliði Selfoss, með bikarinn sem er í boði um helgina. vísir/anton brink
Undanúrslitin í Coca Cola-bikar kvenna í handbolta fara fram í Laugardalshöll í dag. Fyrri leikurinn hefst klukkan 17.15 en þar eigast við Stjarnan og Selfoss.

Gengi liðanna á tímabilinu hefur verið heldur betur misjafnt. Stjarnan berst um efsta sæti Olís-deildarinnar við Fram á meðan Selfoss hefur ollið miklum vonbrigðum eftir uppbyggingu síðustu ára og er í næsta neðsta sæti.

Stjarnan er mikið bikarlið, bæði í kvenna- og karlaflokki, eins og sást í fyrra þegar Garðabæjarstúlkur gerðu sér lítið fyrir og unnu Gróttu í úrslitum sem átti ekki að vera hægt.

„Bikarlið er það er sem við viljum vera og höfum verið að berjast um marga titla síðustu ár. Loksins í fyrra náðum við honum og það gerir ekkert annað en að hjálpa okkur í ár,“ segir Sólveig Lára Kjærnested, fyrirliði Stjörnunnar.

„Reynsla hjálpar alltaf til. Ungu stelpurnar hjá okkur fengu að upplifa hversu skemmtilegt þetta er í fyrra. Það er alveg einstök stund að vera í Höllinni og lyfta bikar fyrir framan fjölskyldu og vini og alla stúkuna. Þetta er tilfinning sem við viljum allar upplifa aftur og munum gera allt til þess að það verði að veruleika,“ segir Sólveig Lára.

Þrátt fyrir að vera Davíð í viðureign morgundagsins eru stúlkurnar í Selfossi brattar. Þær eru búnar að tapa þrisvar sinnum fyrir Stjörnunni í deildinni í vetur en síðast þegar liðin mættust 11. febrúar munaði aðeins þremur mörkum á liðunum.

„Við getum verið stórhættulegar þegar við erum upp á okkar besta þannig að þetta verður hörkuleikur á fimmtudaginn og við erum tilbúnar,“ segir Margrét Katrín Jónsdóttir, fyrirliði Selfoss.

„Eins og hefur sést í deildinni erum við bara að tapa með einu til tveimur mörkum. Þetta eru bara smáatriðin þannig ef við lögum þau þá vinnum við leikinn.“

Mikil stemning er á Selfossi fyrir leiknum enda í fyrsta sinn sem Selfyssingar mæta í Höllina í kvennaflokki. Búist er við miklum fjölda áhorfenda úr mjólkurbænum.

„Við erum búnar að safna öllum á Selfossi til að koma og styðja við bakið á okkur. Það verður bara Selfoss í stúkunni. Við höfum engar áhyggjur af þessu þó þetta sé nýtt fyrir okkur og flesta í liðinu,“ segir Margrét Katrín Jónsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×