Innlent

„Auðvitað verða sálmar kenndir áfram“

Erla Hlynsdóttir skrifar

Mannréttindaráð Reykjavíkur hefur frestað til 3. nóvember afgreiðslu á ályktum um samskipti leik- og grunnskóla við trúfélög. Mannréttindaráð fundaði um málið upp úr hádeginu í dag.

Margrét Sverrisdóttir, formaður ráðsins, segir engar formlegar tillögur hafa verið lagðar fram á fundinum. Þar hafi nokkrar umræður átt sér stað og fólk skipst á skoðunum en ákveðið að fresta málinu til næsta fundar.

Meirihluti mannréttindaráðs lagði á síðasta fundi sínum fram drög að ályktun um samskipti trúfélaga við leik- og grunnskóla og hefur umræðan um drögin farið hátt undanfarið þar sem sitt sýnist hverjum. Innan ráðsins hefur verið samstaða um ályktunina meðal fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna en fulltúar Sjálfstæðisflokks verið henni andsnúnir.

Margrét segir umræðuna hafa að sumu leyti byggst á misskilningi og jafnvel útúrsnúningum. Hún útilokar ekki að orðalagi ályktunarinnar verði breytt til að fyrirbyggja frekari misskiling áður en hún verður afgreidd úr ráðinu.

„Auðvitað verða sálmar kenndir áfram sem hluti af íslenskri arfleifð," segir hún en andstæðingar breytinganna hafa gagnrýnt að skólabörn fái ekki lengur að læra sálma ef þær ná fram að ganga. „Við erum hér aðeins að tala um að afnema sálmasöng í tilbeiðsluskyni. En það er af og frá að verið sé að taka Jesú úr jólunum. Það er heldur ekkert verið að hrófla við kennslu í kristinfræðum," segir hún.

Að sögn Margrétar er mesta áherslan hjá mannréttindaráði lögð á að tekið sé fyrir aðgang presta að börnum á skólatíma. „Kirkjan er auðvitað þarna að missa spón úr aski sínum ef hún fær ekki að heimsækja leikskólana," segir hún.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×