Innlent

„Aldrei haldið því fram að þetta væru heildarlaunin“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Ég ætla ekkert að tjá mig um það hvað ég fékk fyrir austan á þessum tímabili."
„Ég ætla ekkert að tjá mig um það hvað ég fékk fyrir austan á þessum tímabili."
„Ég hef aldrei haldið því fram að þetta væru heildarlaunin mín, sem voru á launaseðlinum sem ég birti,“ segir Þóra Elísabet Kristjánsdóttir, námslæknir, sem á dögunum birti launaseðil sinn vegna útgreiddra launa frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Á launaseðlinum kom fram að heildarlaun hennar fyrir hundrað prósent vinnu voru tæpar 437 þúsund krónur, eða um 277 þúsund krónur eftir skatt. Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að hún hafi á sama tíma fengið um 1,5 milljónir króna fyrir störf sín hjá Heilsugæslunni á Egilsstöðum.

Þóra Elísabet sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hafi birt seðilinn til að sýna hversu lág launin væru fyrir hundrað prósent dagvinnu. Hún vildi þó ekki staðfesta launagreiðslu upp á 1,5 milljónir króna og sagði baráttu hennar snúast um mannsæmandi dagvinnulaun. Hún sé með aðskilda launaseðla,annars vegar fyrir dagvinnu og hins vegar fyrir yfirvinnu.

Aðspurð hvort hún teldi slíka kjarabaráttu heiðarlega, að upplýsa aðeins um lítinn hluta launaseðla sinna sagði hún það engu máli skipta hvort hún sé á sólarhringsvöktum úti á landi daginn út og daginn inn, baráttan standi um að bæta dagvinnulaunin. Það væri ekkert launungarmál að hún starfi stundum úti á landi og í Noregi og hafi mun meira upp úr því en fyrir störf sín í Reykjavík. Það sé þó ekki hennar vilji – hún vilji ná endum saman á dagvinnulaunum í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×