Innlent

„Aðstandendur verða að taka á sig byrðarnar“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Ef heimaþjónusta verður ekki efld og hjúkrunarrýmum fjölgað á næstu árum, endar með því að öldruðum verður vísað til aðstandenda þar sem hið opinbera mun ekki hafa bolmagn til að annast þá sem á aðstoð þurfa að halda. Þetta segir yfirmaður hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Fram kom í fréttum hjá okkur í gær að hátt í sjötíu aldraðir sjúklingar væru fastir á Landspítalanum vegna skorts á hjúkrunarrýmum, margir hverjir mánuðum saman. Forstjóri Landspítalans benti á að lausnin fælist ekki eingöngu í að fjölga hjúkrunarheimilum, styðja þurfi betur við aldraða einstaklinga sem geta og vilja, búið í heimahúsi. Nýtt verkefni sem velferðarsvið Reykjavíkur hefur umsjón með miðar einmitt að því.



„Markmiðið hjá okkur er að fólk geti verið sjálfstætt og gert hlutina sjálft. Við viljum koma inn með massíva þjónustu í takmarkaðan tíma og svo stígum við aftur út þegar við sjáum að viðkomandi er fær um þetta,“ segir Berglind Magnúsdóttir, forstöðumaður Heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.





Berglind Magnúsdóttir
Um tilraunarerkefni til 9 mánaða er að ræða og er það fjármagnað af heilbrigðisráðuneytinu. Hugmyndafræðin á bak við verkefnið kemur frá Danmörku og snýst um að virkja eldri borgara og styrkja þá til að vera virkir þátttakendur í eigin lífi eins lengi og mögulegt er.



„Þetta er eitt af því sem er svo mikilvægt, að fólk upplifi að það geti gert hlutina sjálft en geti jafnframt leitað sér hjálpar gerist þess þörf,“ segir Berglind.





Íslenska þjóðin er að eldast. Því er spáð að eftir um fimm áratugi verði næstum því fjórðungur landsmanna, 67 ára og eldri og fimmti hver Íslendingur 85 ára og eldri. Því er ljóst að fjölga þarf úrræðum fyrir aldraða og efla þau sem fyrir eru.

„Við þurfum að spýta í lófana ef við ætlum ekki að lenda í gífurlegum vandræðum á næstu árum.“



„Hvað gerist ef þetta heldur áfram eins og það hefur gert á undanförnum árum?“



„Það er ljóst að einhverntímann kemur að þolmörkunum hjá spítalanum ef það hefur ekki þegar gerst og þá eru það aðstandendur sem munu taka þessar byrðar,“ segir Berglind.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×