Viðskipti innlent

Yrsa samdi við Salomonsson

Freyr Bjarnason skrifar
Yrsa gerði samning við umboðsskrifstofuna Salomonsson frá Svíþjóð.
Yrsa gerði samning við umboðsskrifstofuna Salomonsson frá Svíþjóð.
Glæpasagnahöfundurinn Yrsa Sigurðardóttir hefur gert samning við sænsku umboðsskrifstofuna Salomonsson.

Um fjörutíu rithöfundar frá Skandinavíu eru á mála hjá skrifstofunni, þar á meðal glæpasagnahöfundarnir Liza Marklund, Jo Nesbø og Jens Lapidus.

„Þau hringdu í mig og sögðust telja að ég gæti selt meira erlendis,“ segir Yrsa, spurð út í samninginn. Hljótt hefur verið um samninginn, sem var undirritaður síðasta vor. „Mér finnst svakalega fínt að vinna með þeim. Þau eru að gera mjög góða samninga. Þetta er stór umboðsskrifstofa með lögfræðinga. Þetta er harður bransi í útlöndum og maður getur ekki gert þetta sjálfur.“

Forlagið Veröld gefur enn út bækur Yrsu hérlendis en Salomonsson hefur núna yfirumsjón með öllum samningum sem Yrsa gerir við erlend bókaforlög. Þær bækur hennar sem um ræðir eru síðasta bók hennar, Kuldi, og næstu bækur hennar, þar á meðal Lygi sem kemur út í lok vikunnar.

Salomonsson hefur einnig mjög sterk tengsl inn í Hollywood og hefur verið duglegt við að koma skandinavískum glæpasagnahöfundum á framfæri í kvikmyndaborginni.

Fram undan hjá Yrsu er þátttaka í glæpasagnaráðstefnunni Iceland Noir sem verður haldin um næstu helgi. Að henni lokinni tekur við kynning á Lygi, þar sem Þóra lögmaður verður fjarri góðu gamni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×