Innlent

Yfirlýsing Jóns sé hluti af spuna

Boði Logason skrifar
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
„Það kæmi mér reyndar ekki á óvart að þessi yfirlýsing hans væri hluti af spuna og að næst hefjist atburðarás sem snúist um að fá Jón til að „hætta við að hætta“,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.

Eins og kom fram í morgun tilkynnti Jón Gnarr að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram sem borgarstjóri, og að Besti flokkurinn verði lagður niður í núverandi mynd.

Í samtali við Vísi segir Kjartan að Jón sé þekktur fyrir óvænt útspil.

„Ég held að það eigi eftir að koma í ljós hvort að honum sé alvara með þessu. Ég kýs bara að trúa mönnum þar til annað kemur í ljós. Jón er þekktur fyrir óvænt og skemmtileg útspil,“ segir Kjartan.

„Ég þekki ekki þessar fyrirætlanir sem eru á bak við þetta. Þessi yfirlýsing kemur daginn eftir að fjárhagsáætlun borgarinnar er lögð fram. Það er full þörf á að ræða hana, það eru óveðurský á lofti í fjármálum borgarinnar,“ segir hann.

„Eitt af því sem meirihlutinn hefur gert margoft, er að koma sér undan að ræða óþægileg mál með svona fjölmiðlaútspilum,“ segir hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×