Innlent

Yfir 60 eftirskjálftar við Grímsey

Sterkur jarðskjálfti upp á 5,5 stig varð um eitt leitið í nótt með upptökum um 14 kílómetra austur af Grímsey, og annar upp á 4,1 stig skömmu síðar.

Fyrri skjálftinn fannst víða á Norðurlandi, eða allt frá Sauðárkróki í vestur og austur á Raufarhöfn og upp í Mývatnssveit.

Talsverð eftirskjálftavirkni kom svo í kjölfarið og mældust um 60 skjálftar til klukkan þrjú, margir á bilinu tvö til þrjú stig, en upp úr því fór að draga verulega úr virkninni.

Þó má búast við áframhaldandi virkni og að skjálftar finnist á landi, segir í tilkynningu frá Almannavörnum.

Að sögn jarðskjálftafræðings á Veðurstofunni nú í morgun voru upptök stóru skjálftanna á þekktu brotabelti og kemur því ekki á óvart að þar verði snarpir skjálftar.

Ekkert bendi þó til að þetta sé fyrirboði eldsumbrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×