Innlent

WOW air íhugar skaðabótamál

erla björg gunnarsdóttir skrifar
Skúli Mogensen og lögmaður hans meta nú tjónið sem þeir telja WOW air hafa orðið fyrir.
Skúli Mogensen og lögmaður hans meta nú tjónið sem þeir telja WOW air hafa orðið fyrir.
Kærunefnd útboðsmála hefur í framhaldi af kæru Wow air, sem kom til vegna kaupa ríkisins á farmiðum af Icelandair án útboða, lagt fyrir fjármálaráðuneytið að bjóða út innkaup á flugfarmiðum til og frá Íslandi.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður á Málflutningsstofu Reykjavíkur sem fór með málið fyrir hönd WOW air, segir að úrskurðurinn staðfesti að útboðsskylda hafi verið til staðar og að hún hafi verið sniðgengin.

Páll Rúnar M. Kristjánsson
„Hér hefur hundruðum milljóna verið ráðstafað árlega af ríkinu án útboðs,“ segir Páll Rúnar og bætir við að flugfélagið íhugi nú skaðabótamál.

„Það eru að meginstefnu tveir aðilar á þessum markaði. Annar þeirra, sem er almennt ódýrari og stundvísari, fékk því sem næst ekkert af þessari veltu á meðan allt þetta fé rann til samkeppnisaðilans,“ segir Páll Rúnar.

Lögmaðurinn segir ekkert réttlæta fyrrnefnt fyrirkomulag.

„Það gefur augaleið að þessi sniðganga ríkisins hefur valdið tjóni og næsta skref í málinu er að meta það tjón,“ segir Páll Rúnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×