Innlent

Vonast til að opna Sprengisandsleið á föstudagskvöld

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Sprengisandsleið.
Frá Sprengisandsleið. Mynd/ Kristbjörn Gunnarsson.
Vegagerðin stefnir að því að senda veghefill upp úr Bárðardal í fyrramálið á Sprengisand í því skyni að ryðja burt sköflum og lagfæra veginn fyrir sumarumferðina. Jón Ingólfsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Húsavík, segir að ef vel gangi vonist menn til að hægt verði að opna Sprengisandsleið á föstudagskvöld, það er þann hluta sem fer um Bárðardal. Þá áformar Vegagerðin á Akureyri að kanna leiðina upp úr Eyjafirði í dag. Vegagerðarmenn að sunnan er þegar búnir að opna syðri hluta Sprengisandsvegar að Nýjadal.

Helstu hálendisvegir eru annars þegar orðnir færir, þar á meðal Kjalvegur, Kaldidalur, Fjallabaksleið nyrðri, Öskjuleið að Drekagili og leiðin í Kverkfjöll. Einnig leiðirnar inn í Landmannalaugar, Veiðivötn, Jökulgil, Langasjó og Lakagíga. Á Vestfjörðum er búið að opna Þorskafjarðarheiði og Steinadalsheiði en Kollafjarðarheiði er ófær. Á Austfjörðum er enn ófært í Loðmundarfjörð.

Auk Sprengisands er Fjallabaksleið syðri enn ófær. Gæsavatnaleið er lokuð og norðanlands eru leiðirnar í Fjörður og Flateyjardal einnig lokaðar, samkvæmt hálendiskorti Vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×