Skoðun

Völd forseta Íslands

Eva H. Baldursdóttir skrifar
Um alllangt skeið hafa fræðimenn, núverandi forseti, stjórnmálamenn og fleiri tekist á um hlutverk og völd forseta. Sitt sýnist hverjum og umræðan einkennist af lögfræðilegum vangaveltum, flokkapólitík og persónulegum skoðunum. Kjarninn í umræðunni er að hlutverk forseta er óskýrt samkvæmt íslenskum stjórnlögum og hefur verið undirorpið þróun á stjórnskipulegum vettvangi.

Óvissa um hlutverk og völd forseta leiðir til þess að það er háð persónu hans og geðþótta hverju sinni hversu langt völd hans ná. Nærtækasta dæmið er málskotsréttur forseta til þjóðar um synjun eða samþykkt á frumvörpum frá Alþingi. Enga takmörkun er að finna á beitingu þess valds í stjórnarskránni, sem leiðir til þess að fræðilega getur forseti skotið fjárlögum til þjóðaratkvæðis. Hlutverk forseta í utanríkismálum er óskýrt en ekki er ljóst hvort hann er bundinn af utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar. Þá takast menn á um hvort forsetinn geti íhlutast til um stjórnar­athafnir framkvæmdarvaldsins, sem hingað til hefur verið litið á sem hlutverk formlegs eðlis. Alvarleg togstreita gæti orðið við stjórn landsins ef einhver framantalinna atriða yrðu að veruleika.

Forsetinn er einn einstaklingur. Hann er ekki bundinn skyldu til samráðs eða er inni í forsendum ákvarðana í einstaka málum. Þingmenn og ráðherrar hafa allajafna skyldur við tiltekinn hóp manna, svo sem þann flokk sem þeir tilheyra, stjórnsýslu og svo framvegis. Ráðherrar bera svo lagalega og pólitíska ábyrgð. Þá þarf a.m.k. 32 menn til að samþykkja lög auk þeirra sem að málum koma á fyrri stigum.

Þróun embættis forseta Íslands hefur leitt til þess að það er ekki í takt stjórnskipan annarra evrópskra þingræðisríkja. Í Frakklandi, þar sem stjórnskipunin er kennd við forsetaræði, er svigrúm forseta til beitingar á málskotsrétti takmarkað bæði hvað varðar málaflokka og persónulegt athafnafrelsi. Ísland hefur talist til ríkja sem búa við hreint þingræði en spyrja má hvort þróun stjórnskipunarinnar skipi okkur meðal ríkja sem búa við forsetaræði. Er það sú skipan sem þjóðin vill? Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá var að finna margar góðar breytingar á embætti forseta t.d. að takmarka setu hans í embætti, breytingu á kjöri o.s.frv. Breytingar sem eru löngu tímabærar. Staða forsetaembættisins er aðeins ein önnur áminning um nauðsyn endurskoðunar á stjórnarskránni.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×