Innlent

Vistvæn vottun felld úr gildi

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra. Vísir/Stefán
Landbúnaðarráðuneytið hefur ákveðið að fella úr gildi reglugerð um vistvæna vottun, því hún sé úrelt og barn síns tíma. Nærri allt íslenskt grænmeti er merkt með vottuninni.

Fréttablaðið greindi frá því þann 26. júní á síðasta ári að meirihluti íslensks grænmetis í matvöruverslunum væri með merki sem héti Vistvæn vottun. Þá kom fram að vottuninni hefði verið komið á fót með reglugerð árið 1998 en síðan þá hefði nær ekkert eftirlit verið með því að henni væri framfylgt. Í reglugerðinni kom fram að eftirlitsaðilar ættu að kanna einu sinni á ári hvort bændur uppfylltu skilyrði hennar. Þá var greint frá því að einhverjir grænmetisbændur hefðu hafið störf eftir að eftirliti var hætt en notuðu engu að síður vottunina.

Í kjölfar frétta blaðsins setti Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra á fót starfshóp sem átti að fara yfir reglugerðina. „Í dag erum við með aðbúnaðarreglugerð, velferðarreglugerð og dýralögin sem ganga miklu lengra en þessi vistvæni geiri. Svo tókum við upp matvælalöggjöf Evrópusambandsins árið 2010 og þar eru líka hlutir sem ganga lengra en var í þessari reglugerð,“ segir Sigurður.

Hann segir þó ekkert því til fyrirstöðu að grænmetisbændur noti vottunina áfram eftir að reglugerðin sé felld úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×