Innlent

Vissi ekki af konunni í karlaklefanum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Merkingar á herbergi ætlað til bleiuskipta í Laugardalslaug vekur athygli.
Merkingar á herbergi ætlað til bleiuskipta í Laugardalslaug vekur athygli.
Í karlaklefanum í Laugardalslaug er sérstakt herbergi ætlað fyrir feður sem þurfa að skipta á börnum sínum. Athygli vekur að herbergið er merkt með mynd af konu að skipta á barni. Á netinu er hægt að finna merki sem sýna karlmann sinna þessu verki og hafa feður sem heimsækja laugina óskað eftir því að þetta verði endurskoðað.

Logi Sigurfinnsson, forstöðumaður Laugardalslaugar, ætlar að endurskoða pantanir á skiltum og merkingum fyrir laugina. „Í fyrsta lagi vissi ég ekki að það væri skilti sem sýndi konu utan á herberginu,“ segir hann og heldur áfram:

„Við pöntum inn skilti að utan, þetta eru alþjóðleg skilti. En núna fer ég og tékka á þessu."

Logi ætlar því að gera sitt til þess að fjarlæga konuna úr karlaklefanum. „Ef það er mynd af konu er alveg sjálfsagt að skipta því út. Þær eiga lítið heima þarna."

Efast um að feður láti þetta stoppa sig

Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur sem hefur fjallað mikið um jafnréttismál, segir að horfa þurfi á heildarmyndina í þessu máli. Þó að herbergið sé merkt með skilti af konu sé jákvætt að herbergið sé til staðar.

„Fyrir nokkrum árum kostaði Jafnréttisráð athugun á sjoppum við hringveginn og þar kom í ljós að afar oft var bara aðstaða til að skipta á börnum á kvennaklósettinu,“ segir hann. Afar jákvætt sé að aðstaða til bleiuskipta sé að finna bæði í karla- og kvennaklefum.

Ingólfur efast um að feður muni láta skiltið hindra sig og lítur á spaugilegu hliðar málsins.

„Mér finnst eiginlega bara fyndið að menn skuli svo hafa notað þessa merkingu. Ég á líka ekki von á að pabbarnir láti það eitthvað hindra sig. Þannig að auðvitað er fínt að þeir lagi þetta en aðallega er jákvætt að sundlaugarnar hafi aðstöðuna báðum megin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×