Innlent

Vísindamenn á svæðinu passa sig að fara ekki of nærri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rögnvaldur Ólafsson í Samhæfingarstöð almannavarna staðfestir í samtali við Vísi að gos sé hafið norðan Dyngjujökuls en sunnan við Öskju.

„Þetta er líklega á þeim stað þar sem berggangurinn endar til norðurs,“ sagði Rögnvaldur í samtali við Vísi. Hann telur að um sé að ræða 200-300 metra sprungu en verið sé að reyna að staðsetja eldgosið betur.

Starfsmenn eru að tínast inn í Samhæfingarmiðstöð almannavarna sem fékk veður af gosinu um hálf eitt eftir miðnætti. Hann segir að vísindamenn séu á svæðinu við rannsóknir og þeir séu að fylgjast með gangi mála. Reiknað sé með því að um þunnfljótandi hraun sé að ræða.

„Þeir sjá í áttina að þessu en passa sig að fara ekki of nálægt til að byrja með,“ segir Rögnvaldur. „Það gætu orðið sprengingar.“

Rögnvaldur segir að beðið verði með að senda TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, þangað til birtir í fyrramálið. Hann viti sjálfur ekki hvort skjálftavirkni hafi verið mikil í kvöld enda var hann tiltölulega ný mættur.

„Ég var bara sofandi á mínu græna.“

Hér að ofan má sjá viðtal sem fréttamaður Stöðvar 2 tók við Rögnvald í samhæfingarmiðstöðinni um eittleytið í nótt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×