Innlent

Vinna beingræði úr rækjuskel

Svavar Hávarðsson skrifar
Frá vinstri að telja er rannsókna- og þróunarteymi Genís, þau Unnur Magnúsdóttir, Jóhannes Gíslason, Jón M. Einarsson og Lilja Kjalarsdóttir. Úr teyminu vantar Ng Chuen How.
Frá vinstri að telja er rannsókna- og þróunarteymi Genís, þau Unnur Magnúsdóttir, Jóhannes Gíslason, Jón M. Einarsson og Lilja Kjalarsdóttir. Úr teyminu vantar Ng Chuen How. mynd/Genís
Líftæknifyrirtækið Genís á Siglufirði hefur markaðssett tvö fæðubótarefni sem unnin eru úr rækjuskel. Fæðubótarefnin eru árangur áralangrar rannsóknar- og þróunarvinnu við að vinna verðmæti úr hráefni sem um áratugaskeið var hent. Þróun á efni til að græða beinvef eftir beinbrot eða annan alvarlegan skaða er langt á veg komin.

Lilja Kjalarsdóttir, framkvæmdastjóri Rannsóknar- og þróunarsviðs hjá Genís, segir að rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækisins hafi staðið yfir síðastliðin ellefu ár, og því sé um stóran áfanga að ræða hjá fyrirtækinu nú þegar tvær fyrstu vörurnar eru komnar í hillur lyfjaverslana.

„Þetta er vissulega búið að vera lengi í fæðingu og því stór áfangi. Þess utan erum við með fleiri vörur í þróun sem eru langt komnar,“ segir Lilja og tekur undir að þegar leikmaður les um virkni efnanna þá fari ekki á milli mála hversu mikil vísindi liggja þeim að baki.

„Við höfum fengið stór alþjóðleg ráðgjafarfyrirtæki til okkar þar sem við erum að undirbúa markaðssetningu um allan heim, og fulltrúar þeirra hafa látið þess getið hversu sérstakt það er að svo mikil rannsóknarvinna liggi að baki vöru sem er seld sem fæðubótarefni, hvað þá að vera svo vel varin af einkaleyfum.“

Í samhengi segir Lilja að Genís sé að stíga fyrstu skrefin inn á lækningatækjamarkaðinn með því að nýta þekkingu og tækni sem fyrirtækið er búið að byggja upp á rúmum áratug. Tæknin, sem er varin einkaleyfi, liggur að baki efni sem best verður lýst sem bein­græði; efni sem græðir skaddað bein. Efninu, BoneReg-Inject™, er sprautað í laskaðan beinvef og skapar umhverfi fyrir nýmyndun beinvefs með góða tengingu við aðliggjandi bein og án nokkurrar örvefsmyndunar.

Verkefnið er unnið í samstarfi við innlenda og erlenda bæklunarskurðlækna, og í tilraun á öldruðum kindum tókst á nokkrum mánuðum að loka holu í beini sem var átta millimetrar í þvermál.

„Miðað við þau efni sem nýtt eru í dag eru þetta hreint ótrúlegar niðurstöður. Tilraunir hingað til hafa verið eingöngu í dýrum en nú styttist í að klínískar tilraunir hefjist,“ segir Lilja.

Fyrir tveimur árum hófst undirbúningur að markaðssetningu fullþróaðra vara og þróunarverksmiðja var sett á laggirnar. Starfsmenn á Íslandi eru sextán; fimm í rannsóknar- og þróunardeild til húsa í Nýsköpunarmiðstöð Íslands í Reykjavík en ellefu í verksmiðju á Siglufirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×