Innlent

Vill leggja fram vantrauststillögu á Bjarna út af félögum í skattaskjóli

Höskuldur Kári Schram skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. Vísir/Vilhelm
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varaformaður þingflokks vinstri grænna vill að stjórnarandstaðan sameinist um vantrauststillögu á Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra út af tengslum hans og fjölskyldu hans við félög í skattaskjólum. Faðir Bjarni stofnaði fyrirtæki á Tortólu í gegnum panömsku lögfræðistofuna Mossack Fonseca.

Fjallað er um aflandsfélag Benedikts Sveinssonar föður Bjarna í Stundinni í dag en upplýsingarnar koma úr Panamaskjölunum. Þar kemur fram að Benedikt stofnaði félagið Greenlight Holding Luxembourg S.A. á Tortólu árið 2000 og var félagið starfandi til ársins 2010. Það ár tók í gildi ný löggjöf á Íslandi sem fól í sér að eigendur aflandsfélaga þurftu að gera grein fyrir þessum eignum í skattframtölum.

Benedikt sat sjálfur í stjórn félagsins ásamt Guðríði Jónsdóttur móður Bjarna og höfðu þau bæði prókúru fyrir félagið.

Áður hefur komið fram að Bjarni Benediktsson notaðist við félag í skattaskjóli sem stofnað var í gegnum Mossack Fonseca árið 2006 til að stunda fasteignaviðskipti í Dúbaí.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir varaformaður þingflokks vinstri grænna segir að þær upplýsingar sem koma fram í umfjöllun Stundarinnar grafi enn frekar undan trúverðugleika Bjarna. Hún vill að stjórnarandstaðan leggi sameiginlega fram vantrauststillögu á Bjarna en segir þó að engar formlegar viðræður hafi fram á milli þingmanna stjórnarandstöðunnar um þetta.

„Það hefur ekki verið neitt formlegt samtal um það að mér vitandi. En mér þykir ekki ólíklegt að fólk velti því upp í framhaldi af þessu,“ segir Bjarkey. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×