Innlent

Vill ívilnun frá iðnaðarráðherra til að leigja Grímsstaði

Kínverjinn Huang Nubo hefur á grundvelli nýlegra laga um ívilnanir sótt um undanþágu til iðnaðarráðherra til langtímaleigu á Grímsstöðum á Fjöllum í því skyni að reisa þar lúxushótel en einnig til að reisa fimm stjörnu hótel á Reykjavíkursvæðinu.

Ósk Nubos í fyrrasumar um að kaupa Grímsstaði olli uppámi innan ríkisstjórnarinnar en svo fór á endanum að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra synjaði fyrirtæki Nubos um undanþágu til að kaupa jörðina. Samfylkingarmenn með Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra og Kristján Möller, formann atvinnuveganefndar Alþingis, í broddi fylkingar, kváðust þá ætla að leita annarra leiða til að greiða götu Nubos og efndu til funda með umboðsmanni hans á Íslandi.

Nú virðist farvegurinn fundinn, rúmlega ársgömul lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi en þau heimila ráðherra meðal annars að veita undanþágu frá skilyrði laga um að eignarréttur og afnotaréttur fasteigna sé í höndum íslenskra ríkisborgara. Sérstök ívilnananefnd, skipuð fulltrúum iðnaðar-, fjármála, og viðskiptaráðherra, gerir tillögu til iðnaðaráðherra, sem veitir ívilnanir.

Umsókn Huang Nubo er dagsett 18. janúar og er um langtímaleigu á hluta Grímsstaða og að íslenskt fyrirtæki í hans eigu fái að reisa og reka þar 100 herbergja lúxushótel. Ennfremur að fá á Reykjavíkursvæði að reisa og reka 300 herbergja 5 stjörnu hótel.

Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 túlka embættismenn iðnaðarráðuneytis ívilnunarlögin svo að það sé í höndum iðnaðarráðherra að veita ívilnanir, samkvæmt lögunum, og að málið þurfi ekki að fara fyrir innanríkisráðherra.

Engu síður ríkir óvissa um hvaða ráðherra muni afgreiða málið, þar sem líklegt þykir að Katrín Júlíusdóttir verði komin í barnseignarleyfi, og ekki liggur fyrir hvort það verði annar samfylkingarráðherra, sem fari tímabundið með iðnaðarráðuneytið, eða hvort búið verði að sameina það inn í nýtt atvinnuvegaráðuneyti Steingríms J. Sigfússonar, þegar kemur að ákvörðun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×