Innlent

Vill ekki að sér sé refsað fyrir eitthvað sem er ekki henni að kenna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Amanda Wood á vini hér á landi og kærasta en hefur engu að síður verið vísað frá Íslandi á grundvelli þess að hún hefur ekki næg tengsl hér.
Amanda Wood á vini hér á landi og kærasta en hefur engu að síður verið vísað frá Íslandi á grundvelli þess að hún hefur ekki næg tengsl hér.
Hafin er undirskriftasöfnun á vefsíðunni change.org til stuðnings Amöndu Wood, bandarískri konu sem vísa á frá Íslandi vegna þess að hún hefur ekki næg tengsl við landið.

Útlendingastofnun úrskurðaði svo í febrúar í fyrra en Amanda kærði úrskurðinn til innanríkisráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar í mars síðastliðnum.

Amanda giftist íslenskum manni hér á landi í september árið 2011. Skömmu síðar fóru þau til Bandaríkjanna í frí og í nóvember sama ár fluttu þau til Noregs þar sem maðurinn var kominn með vinnu þar.

„Ég reyndi síðan að skrá mig til heimilis þar en maðurinn kom ávallt í veg fyrir það. Ég þurfti að útvega ýmsa pappíra, meðal annars í gegnum vinnuveitanda hans, en ef mér tókst að verða mér úti um nauðsynlega pappíra tók hann sig til og eyðilagði þá,“ segir Amanda í samtali við Vísi.

„Hann nauðgaði mér oft“

Hún segir að á þessum tíma hafi maðurinn verið byrjaður að beita hana ofbeldi.

„Hann nauðgaði mér oft á meðan við vorum gift og sagði við mig að hann hefði fullt leyfi til þess þar sem ég væri eiginkona hans og þar með hans eign. Hann beitti mig einnig annars konar líkamlegu ofbeldi en passaði alltaf mjög vel að það sæist ekki neitt á mér eða bannaði mér að fara út úr húsi þar til förin væru farin, svo það væri ekki hægt að sanna neitt á hann,“ segir Amanda.

Í október 2012 fluttu hjónin aftur til Íslands. Amanda komst þá að því að eiginmaður hennar var ekki skráður með lögheimili hér á landi heldur í Noregi og hún gat því ekki heldur skráð sig til heimilis hér.

„Hann sagði við mig í apríl 2013 að hann hefði fært lögheimili sitt hingað en það er ekki rétt. Sem eiginkona hans gat ég því ekki skráð mig til heimilis á Íslandi þar sem hann hefði þurft að vera skráður hér líka.“

Helga Vala Helgadóttir.
Kærði manninn til lögreglu

Amanda segir að maðurinn hafi ekki látið af ofbeldinu þegar að þau komu til Íslands. Hún hafi meðal annars þurft að leita á spítala vegna áverka sem hún hlaut og eftir að hafa ráðfært sig við vini sína hér á landi ákvað hún að fara frá manninum.

„Ég sótti um skilnað í júní 2013. Þá fór ég einnig til lögreglunnar og kærði manninn fyrir ofbeldi. Ég fór í þriggja tíma langt viðtal hjá lögreglunni og fékk skipaðan lögfræðing vegna málsins. Maðurinn var síðan kallaður til yfirheyrslu hjá lögreglu þar sem hann neitaði öllu og málið var látið niður falla í október 2013 vegna skorts á upplýsingum.“ Fyrrverandi maður Amöndu fór í kjölfarið úr landi og segir hún að hann búi nú á Englandi.

Lögfræðingur Amöndu, Helga Vala Helgadóttir, kærði niðurfellingu málsins til ríkissaksóknara sem sendi það aftur til lögreglunnar til rannsóknar.

„Niðurfelling lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er felld úr gildi með bréfi í byrjun nóvember 2013. Lögregla fellur málið svo aftur niður með bréfi í apríl 2014 og var sú niðurfelling einnig kærð til ríkissaksóknara,“ segir Helga Vala í samtali við Vísi.

„Ákvörðun lögreglustjórans um niðurfellingu málsins er svo aftur felld úr gildi með bréfi ríkissaksóknara í júní 2014 og málið því enn til rannsóknar hjá lögreglunni eftir því sem ég kemst næst.“

Amanda segist meðal annars misst öll tengsl við fjölskyldu og vini í Bandaríkjunum vegna sambandsins við fyrrverandi eiginmanninn.Mynd/Amanda Wood
Óttast hvað tekur nú við

Þegar Amanda sótti um skilnað sótti hún einnig um atvinnu-og dvalarleyfi á Íslandi og útvegaði alla nauðsynlega pappíra til þess en henni hafði verið boðið starf hér.

Henni skildist á starfsfólki Útlendingastofnunar að þetta yrði lítið mál þar sem hún taldi sig hafa farið rétt að í öllu ferlinu en annað kom á daginn þegar henni var neitað um leyfið á grundvelli lítilla tengsla við landið.

„Vegna sambandsins við fyrrverandi manninn minn missti ég öll tengsl við fjölskylduna mína í Bandaríkjunum. Þau vilja ekki tala við mig út af honum og vinir mínir sem ég átti þar trúa mér ekki og vilja ekki hjálpa mér. Mér finnst ég því ekki geta farið aftur þangað þar sem þar er engan stuðning að fá en hér á Íslandi á ég vini sem hafa reynst mér mjög vel og einnig kærasta.“

Hún segist óttast hvað tekur nú við hjá henni.

„Ég vil ekki að mér sé refsað fyrir eitthvað sem að ég reyndi að gera löglega og er í raun ekki mér að kenna. Ég vissi ekki að ég væri hérna ólöglega í upphafi þar sem þáverandi maðurinn minn hélt því leyndu fyrir mér að hann væri ekki skráður til heimilis hér.“

Amanda er ekki lengur með lögfræðing þar sem hún hefur ekki lengur efni á að borga fyrir hann. Vinir hennar reyna nú að gera allt til að aðstoða hana, meðal annars með undirskriftasöfnuninni á netinu, auk þess sem búið er að boða til samstöðufundar fyrir hana á Austurvelli þann 18. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×