Innlent

Vilja þurrfrysta lík og gróðursetja tré ofan á leiðið

Kirkjugarður. Myndin er úr safni.
Kirkjugarður. Myndin er úr safni.
Fimm þingmenn vilja breyta lögum um greftrun og kirkjugarða þannig að heimilt verði að þurrfrysta lík, til að draga úr umhverfismengun.

Í athugasemdum með breytingartillögunni segir meðal annars að þrátt fyrir breytingar , sem gerðar hafa verið á reglugerð um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu, geti niðurbrot líkama hins látna tekið langan tíma, meðal annars vegna aðskotaefna í líkamanum.

Má þar nefna kvikasilfur í tönnum, járnpinna og mjaðmakúlur. Það vandamál verði úr sögunni með þurrfrystingu. Hún fer þannig fram að lík er fryst niður í 18 gráður. Kistunni með líkinu er síðan sökkt í fljótandi köfnunarefni og við það verður líkaminn frauðkenndur. Eftir það er kistan sett á bretti og hrist til, en við hristinginn verður líkið nánast að dufti.

Með því að setja duftið í segulsvið sé unnt að skilja málma frá og þá verði eftir fimm til 30 kíló af dufti, sem sett verði í umhverfisvæna kistu úr maís- eða kartöflusterkju. Á sex til 12 mánuðum aðlagist kistan jarðveginum og með því að gróðursetja tré á leiðið muni það soga í sig næringarefnin, sem losna úr læðingi.

Þingmennirnir sem standa að baki frumvarpinu eru Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason, Ólafur Þór Gunnarsson og Birgitta Jónsdóttir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×