Innlent

Vilja mæla árangur nemenda í bókstöfum en ekki tölustöfum

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra.
Menntamálaráðherra vill að kynnt verði nýtt einkunarkerfi fyrir nemendur í 10. bekk. Nýja kerfið myndi byggja á bókstöfum og verður hugsanlega komið í gagnið á næsta ári. Því er ætlað að nýtast framhaldsskólum við val á nýnemum.

Samræmdu prófin í lok 10.bekkjar voru afnumin 2008.

Forsvarsmenn framhaldsskóla hafa sumir hverjir sagt að vísbendingar séu um að eins konar verðbólgu í einkunum sem sýni ranga mynd af raunverulegri stöðu nemenda. Það geri stjórnendum framhaldsskóla erfitt um vik þegar þeir velja inn nýnema. Um málið var fjallað í Morgunblaðinu í gær og í dag.

Í viðtali við blaðið í dag um málið segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra að nýtt einkunnakerfi sé í deiglunni. Jafnvel verði hægt að taka það í notkun á næsta ári.

Nemendur gætu þá fengið einkunnirnar A, B, C og D, í 10. bekk. Einkunnirnar eiga þá að endurspegla ákveðna þekkingu og miðast við nýja námskrá sem byggir á hæfisþrepum. Bókstafirnir myndu leysa af hólmi einkunnir á bilinu 0-10 en einungis í 10. bekk.

Vonast Katrín til þess að kerfið verði tekið í notkun næsta vetur og telur að það geti nýst vel við innritun í framhaldsskóla en hún telur samræmd próf ekki vera lausnina á vanda framhaldsskólanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×