Innlent

Vilja fund eftir dóm Steingríms

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
Minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur óskað eftir sérstökum fundi nefndarinnar vegna nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Steingríms Sævars Ólafssonar.

Minnihlutinn telur dóminn vekja spurningar um núverandi lagaumgjörð tjáningarfrelsis á Íslandi.

Að mati minnihlutans þarfnast málefnið frekari skoðunar og óskaði hann því eftir að nefndin haldi sérstakan fund. Vill minnihlutinn að boðaður verði álitsgjafar og sérfræðingar til þess að ræða málið sem allra fyrst.

Í tilkynningu sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sendi fjölmiðlum segir að efni fundarins muni snúast um hvernig bæta megi íslenska lagaumgjörð til þess að tryggja betur vernd tjáningarfrelsis á Íslandi.

Einnig verði að komast að því hvernig best verði tryggt að Ísland uppfylli kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd tjáningarfrelsis, sem og sambærilegra ákvæða í öðrum mannréttindasáttmálum sem ríkið hefur gengist við.

Minnihlutinn hefur því óskað eftir að fá á fundinn fulltrúa frá Hæstarétti Íslands, fulltrúa frá dómsmálaráðuneytinu, fulltrúa frá menntamálaráðuneytinu, fulltrúa frá mannréttindaskrifstofu Íslands eða mannréttindaskrifstofu Háskóla Íslands auk sérfræðinga í dómum Mannréttindadómsstóls Evrópu. Þá hefur fulltrúa blaðamanna verið boðið á fundinn en fimm sinnum hefur Mannréttindadómstóllinn snúið við dómi Hæstaréttar . 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×