Innlent

Viðræður um orkusölu til Helguvíkur hafnar

Viðræður eru hafnar milli Magma Energy og Norðuráls um sölu á orku til álversins í Helguvík. Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ fagnar kaupum Magma á HS orku, en oddviti A-listans vill að kannað verði hvort bærinn geti fengið aftur rúmlega 6 milljarða hlut í HS orku sem Geysir Green Energy fékk að láni með skuldabréfi frá bænum.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, fagnar því að hlutur Geysis Green Energy sé nú í höndum aðila sem sé kominn að HS orku til langs tíma. Það hafi greitt fyrir því að samningaviðræður milli Norðuráls og HS orku hafi komist á skrið að nýju.

„Nýi eigandinn er í viðræðum núna við Norðurál um orku til Helguvíkur sem var ekki hægt að eiga áður vegna óvissu um eignarhald í HS Orku," segir Árni.

HS orka er þriðja stærsta orkufyrirtæki landsins með 66 þúsund viðskiptavini. Eftir yfirlýsingar Ross Beaty, stofnanda Magma Energy, um að raforkuverð til stóriðju hér á landi sé allt of lágt er ljóst að stóriðja sem kaupir raforku frá HS orku mun verða fyrir hækkunum í framtíðinni.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi segir að raforkuverð muni ekki hækka til almennra neytenda umfram það sem eðlilegt geti talist.

„Við höfum alls ekki óform um að hækka orkuverð í smásölu. Við viljum halda áfram tryggð við okkar viðskiptavini. Við viljum frekar auka hlut okkar í smásölu heldur en hitt. Það gerir maður ekki með því að hækka verðið," segir Ásgeir.

Gagnrýnt hefur verið að opinberir aðilar fjármagni kaupin að hluta. Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans í Reykjanesbæ, segir eðlilegt í viðskiptum að lán fylgi með kaupum á eignum, en Magma Energy yfirtekur 6,3 milljarða skuldabréf Geysis Green Energy í eigu bæjarins.

„Ég myndi vilja skoða alla lánaskilmála hvort Reykjanesbær geti fengið til baka þann hluti í heitaveitunni sem þetta skuldabréf átti að standa á bak við," segir Guðbrandur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×