Fótbolti

Viðar og Ronaldo í baráttunni um gullskó Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson og Cristiano Ronaldo.
Viðar Örn Kjartansson og Cristiano Ronaldo.
Viðar Örn Kjartansson og Cristiano Ronaldo eru báðir meðal þriggja hæstu á listanum yfir markahæstu leikmenn Evrópu á tímabilinu 2014-15 en sigurvegarinn hlýtur að launum Gullskó Evrópu.

Viðar Örn hefur raðað inn mörkum með Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í ár en íslenski framherjinn hefur meðal annars tólf marka forskot á næstu menn í baráttunni um markakóngstitilinn í Noregi.

Viðar Örn er líka mjög ofarlega í baráttunni um gullskó Evrópu og nýtur þar góðs af því að vetrardeildirnar í Evrópu eru bara nýbyrjaðar.

Viðar er nú í þriðja sæti listans með 25 stig en leikmenn í norsku deildinni fá bara eitt stig fyrir hvert mark. Viðar hefur skorað 25 mörk í 27 leikjum með Vålerenga á 2014-tímabilinu.

Cristiano Ronaldo er þegar kominn með 16 mörk í 8 leikjum í spænsku deildinni en leikmenn á Spáni fá tvö stig fyrir hvert mark eins og leikmenn í bestu deildum Evrópu.

Cristiano Ronaldo og Luis Suárez fengu báðir gullskóinn á síðasta tímabili (31 mark - 62 stig) en Ronaldo vann Gullskó Evrópu einnig árin 2008 og 2011.

Efsti maður listans í dag er hinsvegar Rússinn Evgeny Kabaev sem skoraði 35 mörk í eistnesku deildinni á tímabilinu. Kabaev hefur þó bara þriggja stiga forskot á hinn magnaða Ronaldo.

Viðar er ekki fyrsti íslenski leikmaðurinn sem er ofarlega á þessum lista en Alfreð Finnbogason endaði í sjöunda sæti á listanum í fyrra.

Staðan

1. Evgeny Kabaev 35 stig

2. Cristiano Ronaldo 32 stig

3. Viðar Örn Kjartansson 25 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×