Fótbolti

Vidal klár með fimm ára samning við Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arturo Vidal fagnar marki Síle í Suður-Ameríkukeppninni með því að stökkva upp á félaga sína.
Arturo Vidal fagnar marki Síle í Suður-Ameríkukeppninni með því að stökkva upp á félaga sína. Vísir/EPA
Arturo Vidal hefur gert fimm ára samning við Real Madrid samkvæmt heimildum spænska blaðsins Sport en hann hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína með bæði Juventus og landsliði Síle.

Arturo Vidal hefur verið orðaður við nokkur lið á undanförnum vikum en hann hefur líka verið í sviðsljósinu eftir frábæra frammistöðu sína með landsliði Síle í Suður-Ameríkukeppninni.

Vidal er upptekinn í Suður-Ameríkukeppninni en það var umboðsmaður hans, Fernando Felicevich, og framkvæmdastjóri Real Madrid, Jose Angel Sanchez sem hafa gengið frá samningnum. Real Madrid á þó enn eftir að ganga frá kaupverðinu við Juventus en ítalska liðið vill fá 30 milljónir evra fyrir leikmanninn.

Arturo Vidal klessti sportbílinn sinn undir áhrifum í miðri Suður-Ameríkukeppninni og samkvæmt frétt spænska blaðsins munu þessu vandræði leikmannsins utan vallar hjálpa Real Madrid mönnum við að lækka aðeins kaupverðið.

Meðal þeirra félaga sem Arturo Vidal var orðaður við var enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal en hann vill frekar flytja til höfuðborgar Spánar en norður til London.

Arturo Vidal átti ágætt tímabil með Juventus sem vann tvöfalt á Ítalíu. Í deildinni var hann með 7 mörk og 4 stoðsendingar í 28 leikjum. Vidal er annar markahæsti leikmaður Suður-Ameríkukeppninnar með 3 mörk og 1 stoðsendingu í 5 leikjum en Síle spilar þar til úrslita á móti Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×