Skoðun

Við eigum erindi

Magnús M. Norðdahl skrifar
Að undanförnu hefur verulega dregið úr fylgi Samfylkingarinnar og forysta flokksins dregið þá ályktun að breytinga sé þörf. Árni Páll Árnason hefur ákveðið að víkja og fjórir frambærilegir einstaklingar lýst sig reiðubúna til þess að taka við keflinu. Jafnframt hefur stjórn flokksins ákveðið að víkja til hliðar.

Ef rétt er á haldið af okkur, almennum félögum, geta falist í þessu sóknartækifæri. Þau munu hins vegar ekki gefast nema að endurnýjun fylgi ferskir vindar og ný nálgun við flokksfélaga og samfélagið í heild. Magnúsi Orra Schram fylgir sá ferskleiki.

Jafnaðarstefnan byggir á frelsi einstaklingsins, jöfnum rétti allra til þess að njóta þess frelsis og sameiginlegri ábyrgð á öllum sem fá ekki notið þess frelsis sem þau eru borin til. Hún á óbreytt erindi við íslenskt samfélag en forystu flokksins og talsmönnum hennar hefur því miður ekki tekist sem skyldi að koma því erindi til skila. Þörf er á nýjum vinnubrögðum og nýrri nálgun. Mér og flestum öðrum jafnaðarmönnum er slétt sama hvað jafnaðarmannaflokkurinn okkar heitir en okkur er ekki sama hvernig hann vinnur. Við viljum ekki að orkunni sé eytt í innbyrðis átök. Við viljum að hann sé trúr grunngildum sínum og þeirri stefnu sem forystunni er falið að fylgja.

Við viljum að þingmenn jafnaðarmanna séu þingmenn alls samfélagsins og lausir við kjördæma- og hagsmunapot. Við viljum að flokkurinn sé skipulagður sem sameiginlegur vettvangur félaga og samtaka sem vinna að framgangi jafnaðarstefnunnar. Við viljum ekki að hann sé byggður upp sem þröngur valdapíramídi fárra kjördæmabundinna aðildarfélaga.

Þannig var sameinaður flokkur Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalistans ekki hugsaður og slíka þróun á endurnýjuð forysta flokksins ekki að styðja.

Til þeirra verka og öflugrar sóknar við erfið skilyrði treysti ég Magnúsi Orra Schram og skora á alla félaga mína að gera slíkt hið sama.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×