Innlent

Verkfall flugvallarstarfsmanna skellur á í nótt

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/anton/daníel
Fimm tíma skæruverkfall flugvallarstarfsmanna skellur á snemma í fyrramálið með tilheyrandi töfum á millilandaflugi en þetta staðfesti Kristján Jóhannsson formaður Félags flugmálastarfsmanna í samtali við fréttastofu í kvöld.

Samkomulag náðist ekki í kjaraviðræðum flugvallastarfsmanna hjá sáttasemjara í dag. Boðuð vinnustöðvun verður á öllum flugvöllum frá kl 4 til kl 9 í fyrramálið og flugfarþegar geta búist við þriggja til fjögurra klukkustunda  seinkun á Keflavíkurflugvelli og um tveggja klukkustunda seinkun á Reykjavíkurflugvelli á umræddu tímabili.

„Við höfum ákveðið að fresta viðræðum til klukkan þrjú á morgun,“ segir Kristján.

Flugvallarstarfsmenn gerðu Isavia gagntilboð í dag en það dugði ekki til.

„Við eigum þó nokkuð í land með það að ná samningum og það ber einfaldlega of mikið á milli eins og staðan er.“

Kristján segir að samninganefndirnar hafi kastað hugmyndum á milli sín í dag og ætla síðan að vinna úr þeim á ný á morgun.

Verkfallsaðgerðir munu hafa áhrif á innanlandsflugið en þó aðallega millilandaflugið, þar sem búast má við tveggja til þriggja tíma töfum á öllum brottförum og komum á morgun.

Samninganefnd Samtaka atvinnulífsins gerði þremur stéttarfélögum flugvallarstarfsmanna tilboð síðast liðinn miðvikudag og höfðu félögin það til skoðunar yfir páskahelgina. Samkvæmt heimildum fréttastofu fara flugvallarstarfsmenn fram á um átján prósenta launahækkun með ýmsum leiðréttingum.


Tengdar fréttir

Allar líkur á töfum á millilandaflugi á morgun

Samninganefnd þriggja stéttarfélaga hefur skoðað tilboð Ísavia um helgina og gerðu samninganefnd Samtaka atvinnulífsins gagntilboð í dag. Skæruverkfall hefst að öllum líkindum kl 4 í fyrramálið.

Icelandair breytir áætlun sinni á Bandaríkjaflugi

Flugfélagið Icelandair hefur breytt áætlun allra flugvéla sem fara frá Bandaríkjunum í kvöld og allra flugvéla sem eru í áætlun 23.apríl vegna verkfalls starfsmanna Isavia á Keflavíkurflugvelli.

Vonast eftir niðurstöðu í dag

Samninganefndir Isavia og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins sitja sáttafund og freista þess að afstýra vinnustöðvun í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×