Fótbolti

Verða Ronaldinho og Eto'o samherjar á ný?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Svo gæti farið að fyrrum Barcelona-mennirnir Ronaldinho og Samuel Eto'o verði samherjar hjá tyrkneska félaginu Antalyaspor á næstu leiktíð.

Félagið tilkynnti í síðustu viku að það hefði samið við Sampdoria um félagaskipti Eto'o og nú virðist sem svo að Antalyaspor hafi gengið frá samningum við Ronaldinho.

Ronaldinho var síðast á mála hjá Queretaro í Mexíkó en samningi hans var rift á dögunum. Ronaldinho lék í eitt ár í Mexíkó og var búinn að missa sæti sitt í byrjunalriðinu undir lok tímabilsins.

Samkvæmt fréttum í Tyrklandi er áætlað að tilkynna þá Ronaldinho og Eto'o sem leikmenn Antalyaspor í næstu viku en þeir voru samherjar hjá Barcelona frá 2004 til 2008.

Ronaldinho, sem var kjörinn besti leikmaður heims árin 2004 og 2005, er 35 ára gamall og hefur einnig verið orðaður við Vasco de Gama í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×