Innlent

Vélin lent án vandkvæða eftir að hafa fengið sprengjuhótun

Airbus farþegaþota frá rússneska flugfélaginu Aeroflot með 253 um borð, lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli um klukkan hálf sjö í morgun, eftir að tilkynnt var um sprengju í vélinni og flugstjórinn óskaði eftir tafarlausu lendingarleyfi á Keflavíkurflugvelli.

Það var klukkan hálf sex sem flugstjórinn tilkynnti um málið, en þá var vélin skammt suðvestur af landinu á leið til Moskvu frá New York.

Að sögn fréttastofu BBC barst flugstjóranum tilkynning frá Bandarískum yfirvöldum um að fimm töskur með ýmiskonar sprengiefni væru um borð og ættu þær allar að springa um leið og vélin lenti í Moskvu.

Allar viðbragðsáætlanir voru virkjaðar á Keflavikurflugvelli og stjórnstöð Almannavarna í Skógarhlíð var mönnuð, og var flugslysaáætlun fyrir Keflavíkurflugvöll þegar virkjuð.

Lögregla virkjaði einnig viðbragðsáætlun gegn ólöglegu athæfi í loftförum. Sjúkrabílar á höfuðborgarsvæðinu voru settir í viðbragðsstöðu og sömuleiðis brunavarnir Suðurnesja, auk þess sem allt slökkvilið á vellinum var virkjað til að taka á móti vélinni í lendingu.

Upphaflega átti hún að lenda korter yfir sex, en vegna mikillar þoku á Keflavíkurflugvelli, tafðist lendingin um 15 mínútur.

Vélin var strax flutt á afvikinn stað þar sem farþegar voru fluttir frá borði og síðan hefst sprengjuleit í vélinni og er málið nú á forræði lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Einhver röskun varð á almennu farþegarflugi um völlinn vegna þessa, þar sem að vélar að vestan voru settar í bið í lofti, og Evrópuvélarnar biðu á vellinum eftir farþegum úr þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×