Innlent

Veita milljónir í forvarnir gegn ofbeldi

Vitundarvakning gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum hefst á næsta ári og verður farið í alla grunnskóla.
Vitundarvakning gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum hefst á næsta ári og verður farið í alla grunnskóla.
Ríkið ætlar að verja 25 milljónum króna í vitundarvakningu gegn kynferðislegu ofbeldi á næsta ári. Öll börn í öðrum og tíunda bekk fá fræðslu, sem og kennarar og annað starfsfólk skóla.

Öll börn í öðrum og tíunda bekk í grunnskólum landsins fá fræðslu um kynferðislegt ofbeldi í skólanum á næsta ári. Alþingi samþykkti við þriðju umræðu fjárlaga að veita 25 milljónum króna í vitundarvakningu á árinu.

UNICEF á Íslandi hefur bent á það að enginn aðili fari með forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum á Íslandi, eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir stuttu.

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, tekur undir með framkvæmdastjóra UNICEF og segir litlu fé hafa verið varið í forvarnir gegn kynferðisofbeldi. Sérstaklega ef miðað er við þá ógn sem ofbeldið sé við líf og heilsu barna og kvenna.

Ísland er aðili að sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu á börnum. „Einn hluti sáttmálans er að standa fyrir vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Síðasta vetur fór óformlegur samráðshópur innanríkisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og velferðarráðuneytis yfir það hvernig mætti standa að þessu hér á landi,“ segir Halla. Niðurstaða þess hóps var að taka ekki hrátt upp efni sem Evrópuráðið býður upp á í þessum tilgangi. „Þrátt fyrir allt erum við hér komin töluvert lengra í vitundarvakningu en til dæmis Mið- og Suður-Evrópulönd.“

Samráðshópurinn hélt fundi með öllum þeim aðilum sem komið hafa að forvörnum gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. „Þetta hefur mest verið á hendi frjálsra félagasamtaka svo það hefur verið dálítið tilviljanakennt hvaða börn fá fræðslu og hver ekki. Við vildum taka á þessu.“

Átakið verður að mestu framkvæmt í gegnum skólana. „Hugmyndin er að því verði komið fyrir að öll börn fái fræðslu í einhverjum ákveðnum árgöngum. Við erum að horfa á annan og tíunda bekk nú. Þetta er eitt pínulítið skref í byrjun, auðvitað á þetta að vera samþætt inn í alla fræðslu í grunnskólum. En það hefur sýnt sig að skólarnir eru misvel búnir til að takast á við slíka fræðslu. Þar er ekki við skólana sjálfa að sakast, þetta hefur ekki verið svo mikið áhersluatriði. Við erum því að fara fetið í þessa átt.“

Til að byrja með verður brúðuleikhús Blátt áfram notað sem fræðsluefni í öðrum bekk, en verið er að setja saman teymi sem mun sjá um fræðslu fyrir tíunda bekk og starfsfólk skóla. thorunn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×