Innlent

Varað við stormi í dag og á morgun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Síðdegis á morgun kemur ný lægð upp að landinu úr suðri með sunnan hvassviðri, talsverðri úrkomu og hlýnandi veðri.
Síðdegis á morgun kemur ný lægð upp að landinu úr suðri með sunnan hvassviðri, talsverðri úrkomu og hlýnandi veðri. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar við stormi suðaustan- og norðvestantil í dag og einnig syðst á landinu í kvöld. Útlit er fyrir skaplegra veður í stutta stund í fyrramálið en ný lægð kemur upp að landinu úr suðri síðdegis á morgun.

Búist er við norðaustan og síðar norðvestan hvassviðri og sums staðar stormi og talsverðri ofankomu í dag. Útlit er fyrir þó nokkra snjókomu á Norðvesturlandi, einkum Vestfjörðum, en með suðausturströndinni og á láglendi á Austfjörðum hlýnar líklega nóg til að úrkoman verði slydda um tíma í dag.

Líkur eru á samgöngutruflunum sökum veðurs, einkum norðan- og austanlands. Í kvöld gengur í hvassa vestanátt með éljum og skafrenningi sunnan- og suðvestantil, þar með talið á Hellisheiði og Suðurlandsvegi austur fyrir Mýrdalssand.

Síðdegis á morgun kemur ný lægð upp að landinu úr suðri með sunnan hvassviðri, talsverðri úrkomu og hlýnandi veðri. Bætir talsvert í vindhraða, úrkomu og hlýindin á þriðjudag og er viðbúið að mikið af þeim snjó sem safnast hefur undanfarna daga bráðni í hlýjum suðvestan stormi og rigningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×