Skoðun

Var Ævar Jóhannesson níðingur?

Haukur Magnússon framkvæmdastjóri skrifar
Ég hef sjaldan lesið aðra eins grein og birtist í Fréttablaðinu föstudaginn 6. mars og er skrifuð af Sif Sigmarsdóttur.

Greinin fer af stað með sympatískum hætti um óléttu rithöfundar. Er ástæða til að óska henni til hamingju með þá upplifun. Í kjölfarið kemur svo kafli um ólíðandi hegðun fólks, sem getur ekki tjáð skoðun sína án þess að nota til þess annan eins óþverra og rithöfundur lýsir í greininni. Skrif sem helguðust af hatri og heift.

Það er því þeim mun furðulegra hvernig hún sjálf lýsir skoðun sinni á óhefðbundnum lækningum og tekur þar sérstaklega fyrir einn ákveðinn mann og seyði sem hann gaf sjúklingum í aldarfjórðung.

Lýsingar hennar og skoðanir á flokknum „óhefðbundnar lækningar“ geta svo varla flokkast undir annað en hatur og heift – þvílíkur orðaforði sem þarna er viðhafður af manneskju, sem byrjaði á því að kvarta undan orðasóðaskap annarra. Dæmi um þetta er þessi svo stórkostlega málefnalega setning: „Sölumenn óhefðbundinna lækninga eru ekkert betri en Nígeríusvindlarar, þeir eru ekkert betri en píramídasvikarar. Þeir eru eins og óbreyttir þjófar.“ Er þetta virkilega texti eftir blaðamann eða rithöfund í sæmilegu jafnvægi? Það er ekki nokkur leið að sjá það.

Og maðurinn, sem gaf fólki lúpínuseyðið er aðalsöguhetjan í þessar dæmalausu grein. Í greininni eru kallaðar til sögunnar tvær eldri konur sem fóru til Ævars til að fá seyði. Bati þeirra af seyðinu lét víst á sér standa í þeirra tilviki.

Hvað ætli batinn hafi látið á sér standa hjá mörgum krabbameinssjúklingum, sem fengið hafa hefðbundna læknismeðferð? Hvað ætli mörgum sjúklingum hafi liðið betur í baráttu sinni við krabbameinið með hjálp þessa manns og lúpínuseyðisins? Ágætt að það komi hér fram, að vísindalegar sannanir liggja fyrir því að lúpínuseyðið styrkir ónæmiskerfið. Lyfjameðferðir skilja ekki góðar frumur frá drápsfrumunum. Fólk í slíkri meðferð verður því máttvana og þótt seyðið geri ekki annað en að styrkja ónæmiskerfi þessa fólks – og láti því líða betur fyrir vikið, þá er til nokkurs unnið.

Með ólíkindum

Ævar Jóhannesson er maður sem fyrir löngu hefði átt að vera sæmdur heiðursriddarakrossi. Allar þær sögur sem lifa af fólki, sem hresstist við að nota seyðið hans, eru til vitnis um það. Þessi svokallaði snákaolíusölumaður, sem að vísu var ekki sölumaður – heldur frekar svona snákaolíugjafamaður, á skilið upplýstari umræðu um feril sinn með lúpínuseyðið að vopni, en þessa stórfurðulegu og ómálefnalegu grein. Þeir sem þekkja til Ævars, vita að þar fer afskaplega hæglátur og vandaður maður sem lætur ekkert frá sér fara nema að vel athuguðu máli. Hann hefur örugglega ekki lofað nokkurri manneskju lækningu, heldur lagt það þannig upp, að ekki sakaði að prófa seyðið því það hefði hjálpað öðrum með svipuð einkenni. Að gera þennan mann að lykilmanni í þessari dæmalausu grein er hreinlega með ólíkindum. Um hvað snérist þessi viðleitni mannsins, var hann kannski að auglýsa lækningar við krabbameini í ágóðaskyni? Eða var hann einfaldlega að reyna að hjálpa fólki með því að standa yfir pottunum daginn út og inn?

Undirritaður framleiðir í dag lúpínuseyðið hans Ævars auk þriggja drykkja sem byggjast á jurtinni hvönn. Hvergi í okkar kynningarefni er fólki lofað nokkrum sköpuðum hlut. Aðeins bent á vísindalega sannaða virkni þessara náttúrujurta og þá sérstaklega hvannarinnar. Á flöskumiðum er spurningarmerki og textinn endar á þennan hátt. „Hér verður ekkert fullyrt um virkni þessa hvannardrykkjar en spurning hvort hann gæti gert þér gott.“ Þessi nálgun gerir mig þá væntanlega líka að snákaolíusölumanni og níðingi eins og alla hina sem Sif setur undir þennan sameiginlega hatt.

Það er alveg ljóst, Sif, að þú eða einhver þér nákominn, hefur upplifað eitthvað persónulega í sambandi við loforð um bata eða lækningu. Það er ekki nokkur leið að útskýra þessa heift með öðrum hætti. Vissulega eru til aðilar sem lofa öllu fögru og algjörlega út í loftið. Það er ekki þar með sagt að við hin öll séum eyrnamerkt þessari óspennandi lýsingu þinni. Sérstaklega ekki Ævar Jóhannesson.

Hann var og er enginn níðingur.


Tengdar fréttir

Sölumenn snákaolíu eru níðingar

Dagurinn sem ég pissaði á prik hefði átt að vera dagur jákvæðra strauma og hamingjuóska. Til stóð að skála í einhverju óáfengu. En svo gerðist dálítið skrýtið.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×