Innlent

Vandi foreldra verður barna

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Sæunn í viðtalsherberginu þar sem hún hittir foreldra sem vilja styrkja tengsl sín við barnið. Örugg tengsl barns við foreldri minnka líkur á andfélagslegri hegðun.
Sæunn í viðtalsherberginu þar sem hún hittir foreldra sem vilja styrkja tengsl sín við barnið. Örugg tengsl barns við foreldri minnka líkur á andfélagslegri hegðun. Fréttablaðið/Anton
„Við gerðum alvarlegar athugasemdir við geðheilbrigðisstefnuna þegar hún var lögð fram í sumar og lýstum yfir þungum áhyggjum af því að í henni var ekki að finna áætlanir um að tryggja þjónustu við yngsta og viðkvæmasta aldurshópinn frá meðgöngu að tveggja ára aldri þrátt fyrir að að fjöldi rannsókna í taugavísindum bendi til þess að þessi tími hafi gríðarlega mikil áhrif á framtíðarheilbrigði fólks,“ segir Sæunn Kjartansdóttir hjá Miðstöð foreldra og barna.

Sæunn nefnir að í nýrri áætlun sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti í byrjun vikunnar sé að finna orðalagið að lengi búi að fyrstu gerð og að góður aðbúnaður barna og jákvæð tengsl við aðra séu mikilvægustu atriði þegar horft er á geðheilbrigði þjóðar til lengri tíma. En það séu orðin tóm. Engin tilraun sé gerð til að útfæra úrræði.

„Það er mjög áberandi hér á landi hversu mikil tregða er til að viðurkenna bága stöðu yngstu barnanna sem eiga foreldra sem glíma við tilfinningalegan vanda af einhverju tagi, allt frá kvíða yfir í alvarlegar geðraskanir eða neyslu. Rannsóknir sýna svo að ekki verður um villst að vandi foreldranna verður vandi barnsins.

Vandi foreldra bitnar á andlegri og líkamlegri heilsu barna og velferð þeirra. Afleiðingarnar geta orðið veik sjálfsmynd, lök félagsleg færni, kvíði og andfélagsleg hegðun. Börn með örugg tengsl við foreldra sína eru mun betur í stakk búin til að takast á við mótlæti og velja heilbrigðar leiðir þegar á þau reynir.“

Hjá Miðstöð foreldra og barna er foreldrum í vanda hjálpað frá meðgöngu og á fyrsta æviskeiði barnsins. „Markmiðið er að efla tengsl á milli foreldra og barna. Tengslamyndunin hefur mikil áhrif fram á fullorðinsár. Ein helst ógn við hana er vanlíðan foreldra, ekki síst kvíði og þunglyndi“ útskýrir Sæunn.

„Hjálpin felst í að veita foreldrum sem eiga von á barni eða eiga barn á fyrsta ári meðferð. Hún er í formi samtalsmeðferðar og barnið kemur með í viðtölin þegar það er fætt. Við fylgjumst með hvernig barni og foreldrum líður, tölum við barnið ekki síður en foreldrana, og leitumst við að skilja eðli vandans.“

Sæunn segir árangur góðan og oft þurfi ekki mikið til, stundum örfá viðtöl til að koma foreldrum og barni á réttan kjöl. „Mjög áreiðanlegar rannsóknir sýna fram á að börn með örugg tengsl eiga betra með að setja sig í spor annarra, vegna þess að foreldrar hafa gert slíkt hið sama við þau. Þau koma þar af leiðandi síður illa fram við aðra sem er hluti af andfélagslegri hegðun.“

Sæunn segir stjórnvöld ekki mjög áhugasöm um árangurinn og mikilvægi þjónustunnar. „Við vitum ekki hvort við lifum eftir áramót. Á hverju ári þurfum við að eyða dýrmætum tíma sem annars færi í meðferðarvinnu í að berjast fyrir starfseminni. Við erum sífellt að sanna tilverurétt okkar, eins og þetta sé prívat áhugamál okkar en ekki nauðsynlegur liður í heilbrigðisþjónustu. Við myndum vilja taka við miklu fleiri fjölskyldum en okkur er mjög þröngur stakkur skorinn. Það er tími til kominn að við horfumst í augu við að það er alvarleg brotalöm í íslensku velferðarkerfi þegar kemur að vanda fjölskyldna með börn frá meðgöngu og fyrstu þrjú til fimm árin.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×