Skoðun

Vandað og skilvirkt eftirlitsumhverfi

Skúli Sveinsson skrifar
Þann 27. júní 2014 skipaði forsætisráðherra vinnuhóp sem hefur það hlutverk að fara yfir lög, reglur og stjórnsýslu mikilvægra eftirlitsstofnana og meta hvernig viðmið um vandað regluverk og stjórnsýslu eru uppfyllt, með einföldun, samræmi og skilvirkni að leiðarljósi.

Á vettvangi OECD og aðildarríkja þess hefur á síðasta áratug verið unnið mikið starf við að innleiða bestu framkvæmd varðandi starfshætti eftirlitsstofnana eða það sem nefnist meðal annars „Best practice principles for regulatory enforcement and inspections“. Nánast öll lönd OECD hafa í dag innleitt þær meginreglur sem skilgreindar hafa verið af hálfu OECD í þessu sambandi en Ísland hefur þó verið eftirbátur annarra ríkja í þessum efnum.

Mikilvægi vandaðra og skilvirkra starfshátta eftirlitsstofnana er ótvírætt. Vandað regluverk og starfshættir eftirlitsstofnana eru grundvallaratriði í hagkerfi sem ætlað er að skapa þegnum sínum velmegun og betri lífskjör. OECD hefur jafnframt skilgreint að vandaðir starfshættir eftirlitsstofnana stuðli að nýsköpun og aukinni framleiðni. Einnig stuðla þeir að nauðsynlegum sveigjanleika þegar kemur að því að fást við ný viðfangsefni, hraðari afgreiðslu leyfa og annars sem atvinnulífið þarf á að halda til að geta vaxið og dafnað.

Betri vinnubrögð

Það meginsjónarmið sem er jafnframt gegnumgangandi er að aukið eftirlit þýði ekki endilega betra eða skilvirkara eftirlit. Það sem lagt hefur verið upp með er að eftirlit skuli byggjast á áhættumati, mati á því hvort reglur séu viðeigandi, auk meðalhófs, með það að markmiði að auka reglufylgni almennt. Einnig að sérstakt tillit skuli tekið til minni fyrirtækja (e. micro, small and medium enterprises – MSMEs), því þau hafi ekki sömu burði og stór fyrirtæki til að innleiða tilskipanir eftirlitsstofnana. Þessi meginregla á sérstaklega vel við á Íslandi því hérlent hagkerfi er í meginatriðum samansett af félögum sem falla í þennan flokk.

Hugmyndafræðin gengur út á að eftirlitsstofnanir vinni sérstaklega með þessum minni félögum til að stuðla að eftirfylgni við lög og reglur, eigi við þau nokkurs konar samtal ef svo mætti að orði komast.

Starf vinnuhópsins mun byggjast á framangreindri vinnu OECD og þeim meginreglum sem hafa verið mótaðar varðandi eftirlit og starfshætti eftirlitsstofnana með það að markmiði að innleiða bestu framkvæmd á þeim vettvangi. Ef vel tekst til mun það stuðla að auknum hagvexti, velmegun og bættum lífskjörum fyrir alla en jafnframt má ekki gleyma að bæði eftirlitsaðilar og þeir sem undir eftirlitið falla geta notið ábata af betri starfsháttum og vinnubrögðum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×