Innlent

Vagnstjórar ekki áminntir vegna frásagnar Bjarna af „fokk-jú“ merki

Bjarki Ármannsson skrifar
„Hann hafði einhverja þörf fyrir að flauta og senda fingurinn,“ segir Bjarni.
„Hann hafði einhverja þörf fyrir að flauta og senda fingurinn,“ segir Bjarni. Vísir
Vagnstjórar Strætó hafa ekki verið sérstaklega áminntir vegna frásagnar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra af því að sami vagnstjórinn hafi ítrekað sýnt Bjarna „puttann“ við Stjórnarráðsbygginguna fyrir tveimur árum.

„Enda er ekki hægt að finna út úr því hver þetta er nema formleg ábending komi inn,“ segir Júlía Þorvaldsdóttir, sviðstjóri hjá Strætó. „Það þarf að koma formleg ábending vegna framkomu bílstjóra og það fer þá bara inn í rafrænt ábendingarkerfi hér og til næsta yfirmanns. Ég get náttúrulega ekki verið að fara yfir það hvort þessi tiltekni aðili hafi verið tekinn fyrir.“

Í viðtali í útvarpsþættinum Bakaríið á Bylgjunni sagði Bjarni vagnstjórann oft hafa mætt fyrir utan Stjórnarráðið þegar Bjarni var að koma út af ríkisstjórnarfundi stuttu eftir þingkosningarnar 2013.

„Hann var að keyra tólfuna og hann hafði einhverja þörf fyrir að flauta og senda fingurinn,“ sagði Bjarni. „Einhver ljóshærður náungi með sítt hár. Ég sá hann svona þrisvar eftir ríkisstjórnarfundi, þá kom tólfan og þessi með fingurinn.“

Júlía segir þessa meintu framkomu vagnstjórans með öllu ólíðandi.  Hafi Bjarni eða einhver annar kvartað undan henni, hafi verið tekið á því á sínum tíma.

„Það er bara mjög strangt kerfi innan Strætó varðandi framkomu vagnstjóra og þær ábendingar og kvartanir sem hingað inn berast. Næsta yfirmanni ber að ræða við viðkomandi, bregðast við og skrá það svo inn í kerfið til úrbóta. Til varnar því að þetta gerist þá nokkurn tímann aftur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×