Innlent

Vafasamt að flytja fiskvinnsluna út fyrir landsteinana

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum stendur til boða að flytja vinnsluna til útlanda.
Íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum stendur til boða að flytja vinnsluna til útlanda. vísir/egill
„Það er augljóst að 1. gr. laga um stjórn fiskveiða [nr. 116/20016] á að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu. Ef farið verður að brjóta gegn því ákvæði þá er það vissulega áhugavert álitaefni.“

Þetta sagði Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði í viðtali við RÚV að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum standi til boða að flytja vinnsluna til útlanda og nefndi Bretland, Austur-Evrópu og Asíu í því samhengi. 

Af þessu tilefni skrifaði Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, færslu á Facebook, þar sem hann dró í efa lögmæti slíkra flutninga og hélt því fram að þeir færu í bága við 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Eyþór sagði að útflutningur á óunnum fiski hefði tíðkast í gegnum tíðina í nokkrum byggðalögum. Hann benti á að Vestmannaeyjar hafi til dæmis flutt út talsvert af fiski til Bretlandseyja.

„Hins vegar hefur það trúlega ekki haft neikvæð áhrif á byggð í Vestmannaeyjum eða atvinnu þar. Þannig að væntanlega er það ekkert fordæmisgefandi í þessu sambandi.“

Eyþór Björnsson forstjóri Fiskistofu
Að sögn Eyþórs er ekkert sem hindrar útflutning óunnins afla ef honum var landað hér í upphafi.

„Reglan er þannig að afli sem veiddur er hér við Ísland skal landað hér og hann vigtaður hér. Ef útgerðir gera það þá geta þær í sjálfu sér flutt aflann út til vinnslu hvar sem er.“  

Eyþór fullyrðir að ekki hafi enn reynt á ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Hann telur þó að ef vinnslur yrðu fluttar úr landi, og þar með störf, þá gæti vissulega reynt á ákvæðið.

Hann sagði að við slíkar aðstæður myndi inngrip stjórnvalda væntanlega koma til skoðunar.

„[Í lagagreininni] er vísað til þess að þetta er sameign þjóðarinnar og vísað til þess að þeir sem fá að nýta þessa sameign okkar hafi ákveðnar skyldur við byggðarlög og atvinnuþróun í landinu,“ sagði Eyþór. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×