Innlent

Úr rannsóknarskipi í bátsflak í eyðifirði

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Guðmundur Bjarnason til hægri á myndinni.
Guðmundur Bjarnason til hægri á myndinni.
Þegar Guðmundur Bjarnason, skipstjóri á hafrannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni, kom úr makrílleiðangri lagði hann fljótlega í annan sjóleiðangur af allt öðrum toga.

Ferðinni var heitið að Krosseyri í Arnarfirði til að kanna flak bátsins Kára BA sem legið hefur þar í árafjöld í fjörunni. Þangað liggur enginn vegur svo ekki er hægt að fara nema sjóleiðina.

Báturinn, sem smíðaður var árið 1939, reyndist hins vegar alveg ónýtur en nú hyggjast Guðmundur og félagar hans í Arnfirðingafélaginu ná vélinni úr honum og koma henni til Bíldudals þar sem hún verður höfð til sýnis. „Við ætlum að freista þess að fara í annan leiðangur helgina 6. til 7. september og ná vélinni,“ segir Guðmundur. „Við eigum reyndar eftir að tala við yfirvöld en okkur þætti best fara á því að hafa vélina fyrir framan smiðjuna á Bíldudal.“

Skipstjóranum virðist renna blóðið til skyldunnar. „Mér finnst eins og maður verði að borga eitthvað til baka en ég átti svo góða æsku á Bíldudal,“ segir hann.

Vélin er af gerðinni Unimunktel og talið er að hún sé sú eina sinnar tegundar hér á landi.

Kári var lengst af í eigu Jóns heitins Jóhannessonar sem er mörgum Bílddælingum eftirminnilegur meðal annars fyrir þær sakir að hann talaði við bátinn og gat látið vélarræfilinn heyra það ef hik var á honum.

Árið 1990 keypti Kristján Pálsson bátinn og setti hann í fjöruna á Krosseyri. Krosseyri er við Geirþjófsfjörð í Arnarfirði en eins og sögufróðir vita ól Gísli Súrsson þar manninn síðari hluta ævi sinnar þar til hann hoppaði helsærður fram af klettinum Einhamri í botni fjarðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×