Innlent

Unnur Brá kjörin formaður Vestnorræna ráðsins

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir er þingkona Sjálfstæðisflokksins og formaður Vestnorræna ráðsins.
Unnur Brá Konráðsdóttir er þingkona Sjálfstæðisflokksins og formaður Vestnorræna ráðsins. Mynd/Alþingi
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og formaður Vestnorræna ráðsins, hefur verið kjörin formaður Vestnorræna ráðsins. 32. ársfundur ráðsins var haldinn í Qaqortoq á Suður-Grænlandi á sunnudag og mánudag.

Í tilkynningu frá Alþingi segir að í ræðu sinni hafi Unnur Brá lagt áherslu á mikilvægi þess að Vestnorræna ráðið haldi áfram að vinna að nánara samstarfi vestnorrænu landanna um málefni norðurslóða, þar á meðal á vettvangi Hringborðs norðurslóða og með því að tryggja að umsókn ráðsins um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu verði samþykkt.

Unnur hafi fagnað yfirlýsingu utanríkiráðherra aðildarlandanna þriggja um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna.

„Ársfundur samþykkti að hvetja stjórnvöld á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi að vinna sameiginlega að rannsókn um umfang plasts í Norður-Atlantshafi og ekki síst áhrif þess á lífríki hafsins. Einnig var samþykkt að beina því til stjórnvalda landanna þriggja að vinna að greiningu á fýsileika þess að setja á fót vestnorræna eftirskóla, ætluðum 14-17 ára ungmennum frá vestnorrænu löndunum. Loks samþykkti ársfundur að beina því til stjórnvalda landanna þriggja að standa fyrir sameiginlegri ráðstefnu um stöðu vestnorrænu landanna í nýjum landfræðipólitískum veruleika.

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur Alþingis, Landsþings Grænlands og Lögþings Færeyja. Löndin þrjú skipa sex fulltrúa hvert í Vestnorræna ráðið. Unnur Brá Konráðsdóttir tekur við embættinu af Lars-Emil Johansen, forseta grænlenska Landsþingsins. Auk Unnar Brár skipa Íslandsdeild ráðsins Páll Jóhann Pálsson, varaformaður, Oddný G. Harðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Páll Valur Björnsson og Þorsteinn Sæmundsson. Formaður ráðsins er kjörinn til eins árs,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×