Enski boltinn

United og Real ætla berjast fyrir félagaskiptum De Gea í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David De Gea vill komast til Real Madrid
David De Gea vill komast til Real Madrid vísir/getty
Enskir fjölmiðlar greina frá því í morgun að Manchester United og Real Madrid séu ekki búin að gefast upp á félagaskiptum Davids De Gea til Real þó allt hafi farið í vaskinn í gær.

Eftir langa félagaskiptasögu komust félögin loksins að samkomulagi um kaupverð og var allt klappað og klárt þar til í ljós kom að pappírsvinnan klikkaði á síðustu stundu. Glugganum var lokað á Spáni klukkan 22.00 í gærkvöldi.

Sjá einnig:Í beinni: Lokadagur félagaskipta á Englandi | Glugginn lokar kl. 17.00

Real og United ætla ekki að gefast upp, en United vill meina að það hafi skráð allt inn í Alþjóðlega félagaskiptakerfið á réttum tíma. Forráðamenn á Old Trafford ætla að tala við National Professional Football League, LFP, í dag og fá þetta á hreint.

Í viðtali við BBC segist spænski umboðsmaðurinn Esteve Calzada hafa litla trú á að þessu verði bjargað. David De Gea sé einfaldlega fastur fram í janúar.

„Það eru ekki mörg dæmi þess að svona félagaskipti gangi í gegn á endanum. Mín upplifun hefur verið sú að það er ekkert sem maður getur gert í þessari stöðu, jafnvel þó um svona stór félög sé að ræða,“ segir Calzada.

David De Gea huggar sig kannski við það að umboðsmaður hans er Portúgalinn Jorge Mendes, enn áhrifamesti maðurinn í heimsfótboltanum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×