Skoðun

Undirstöður hágæða háskólanáms

Berglind Ósk Bergsdóttir skrifar um háskólanám.

Sagt er að bak við hvern rannsóknarháskóla þurfi um 3 milljónir manns. Á Ísland búa 330.000 manns með einn rannsóknarháskóla (samkvæmt ströngustu skilyrðum), Háskóla Íslands, auk þriggja annarra háskóla. Í ljósi efnahagsástandsins og vegna niðurskurðar til háskólanna er ljóst að eitthvað verður að breytast til að veita áfram hágæða háskólanám hérlendis.

Niðurstaða þriggja nefnda á vegum ríkisins er að auka þurfi samstarfið á milli háskólanna til að spara. En hvað felst í auknu samstarfi og hvernig er hægt að hagræða verkskipulagi milli háskólanna? Mikilvægt er að jafnræði og sanngirni ríki í viðhorfi ríkisstjórnar með tilliti til reksturs skólanna. Vert er að minnast á að ríkið greiðir jafn mikið fyrir hvern nemanda hjá einkaskólum og ríkisreknum þrátt fyrir há skólagjöld hjá einkaskólum á meðan ríkisrekinn háskóli hefur ekki leyfi til að taka upp skólagjöld.

Rannsóknarháskólar eru undirstaða í menningar- og efnahagslegum styrk íslensks þjóðfélags. Gæta verður jafnræðis í möguleikum fólks til náms á því stigi og ósanngjarnt væri gagnvart nemendum ef staðan væri sú að greiða þurfi há skólagjöld til þess að fá að stunda nám við rannsóknarháskóla í sínu landi. Verkfræði- og náttúruvísindasvið (VoN) í Háskóla Íslands stendur fyrir metnaðarfullu og fjölbreyttu námi þar sem nemendur fá m.a. tækifæri til að taka áhugaverð námskeið í öðrum deildum, til að mynda er möguleiki á að velja tvo áfanga frá hvaða sviði sem er og einnig að taka fleiri áfanga frá öðrum deildum innan sviðsins.

Með því að sameina krafta úr bæði verkfræði og náttúruvísindum gefst tækifæri á fjölbreyttu og öflugu námi. Fyrir utan að nemendur hafi kost á að taka einstaka áfanga utan sinnar námsleiðar má nefna heildstæðar námsleiðir eins og efnaverkfræði og reikniverkfræði sem ráðast á þessu nána samstarfi sem er á milli verkfræðinnar og náttúruvísindanna. Samstarfi sem hefur orðið gríðarlega öflugt eftir að þessar greinar voru sameinaðar undir sama sviði á seinasta ári. Miklar kröfur eru gerðar til nemenda sem stunda nám við VoN og eru það mikil viðbrigði fyrir marga sem koma beint frá framhaldsskóla. En til að mennta fólk í greinum sem þessum, greinum sem tækni og framþróun þjóðfélagsins byggir á, þýðir ekkert annað. Ég hef upplifað mitt nám við Háskóla Íslands sem mjög metnaðarfullt og gefandi og tel mig vera vel í stakk búna til að takast á við þau tækifæri sem bíða mín eftir námið.

Háskóli Íslands er virtur háskóli á alþjóðavettvangi sem og innlendum og gegnir hann mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Mikilvægt er að bregðast ekki þessari traustu undirstöðu háskólanáms í íslensku samfélagi.

Höfundur er formaður Nörd, nemendafélags tölvunarfræði- og hugbúnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×