Skoðun

Umbrot, óánægja og svo?

Nína Guðrún Baldursdóttir og Auður Inga Rúnarsdóttir skrifar
Undanfarið höfum við orðið vitni að því að almenningur hefur haft fyrir því að koma skoðunum sínum óvenju skýrt og ákveðið á framfæri. Þó að vissulega sé mönnum misheitt í hamsi virðist undirliggjandi krafa um aukið réttlæti og trúverðugleika augljós.

Í fyrra voru samþykkt einróma ný Heimsmarkmið sem eiga að leiðbeina öllum ríkjum heims í átt að sjálfbærri þróun á tímabilinu 2015 til 2030. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 16 snýr einmitt að friði, réttlæti og sterkum stofnunum. Jafnt aðgengi að gagnsæjum og sanngjörnum stofnunum og stjórnarháttum er álitið algjört grundvallaratriði þess að skapa stöðug og friðsæl samfélög sem saman vinna farsællega að sjálfbærni. Í þessu markmiði er meðal annars stefnt að því að fyrir árið 2030 hafi verulega dregið úr spillingu og ólöglegu flæði fjármagns sem og að tryggja það að stofnanir á öllum stigum séu ábyrgar, skilvirkar og hafi gagnsæi ávallt að leiðarljósi.

Ef einhverja ályktun mætti draga af atburðarás undanfarinna daga er það að Íslendinga þyrstir í samfélag sem uppfyllir þessar kröfur. Eftir birtingu Panama-skjalanna hefur íslenskur almenningur staðið fyrir stöðugum aðgerðum, sem einskorðast ekki við stærstu mótmæli Íslandssögunnar, með það að markmiði að knýja fram bæði stjórnarfarslegar og siðferðislegar breytingar. Viljinn til breytinga liggur í augum uppi. Í öllu þessu umróti býðst okkur tækifæri til þess að byggja upp stofnanir og stjórnsýslu með Heimsmarkmið nr. 16 til hliðsjónar og vinna þar með markvisst að því að uppfylla þær kröfur sem við höfum þegar skuldbundið okkur til þess að framfylgja.

Það er von okkar að rödd almennings sé tekin alvarlega en ekki drekkt í fyrirfram ákveðnum sleggjudómum sem virðast því miður innbyggðir í viðbrögð við hvers konar gagnrýni. Við trúum því að Íslendingar vilji málefnalegar umræður um það stjórnarfar sem hér ríkir og að slík umræða sé frekar til þess fallin að auka stöðugleika heldur en að ýta undir óvissu og upplausn.

Drifkrafturinn er til staðar, áskorunin er að sameinast um þá stefnu sem við viljum að samfélag okkar fylgi. Þar er tilvalið að hafa Heimsmarkmiðin að leiðarljósi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×