Innlent

Um 60 prósent hælisumsókna frá Makedónum og Albönum

atli Ísleifsson skrifar
Á árinu 2016 fylgdi stoðdeild Ríkislögreglustjóra 313 einstaklingum úr landi.
Á árinu 2016 fylgdi stoðdeild Ríkislögreglustjóra 313 einstaklingum úr landi. vísir/stefán
Útlendingastofnun bárust 1132 umsóknir um vernd frá ríkisborgurum 56 ríkja, auk ríkisfangslausra, árið 2016. Það eru rúmlega þrisvar sinnum fleiri umsóknir en árið 2015 þegar umsóknir voru 354.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Útlendingastofnun. Um 60 prósent umsækjenda komu frá tveimur löndum, Makedóníu og Albaníu. Niðurstaða fékkst í um 980 umsóknir sem eru fleiri en nokkru sinni áður. Meðalafgreiðslutími umsókna var áttatíu dagar.

„Langfjölmennastir meðal umsækjenda um vernd voru Makedóníumenn (468) og Albanir (231) eða um 60% allra umsækjenda. Næstir þar á eftir voru Írakar (73), Georgíumenn (42) og Sýrlendingar (37). Fjölgun umsókna um vernd milli ára nú skýrist þó ekki eingöngu af hinum mikla fjölda umsækjenda frá Albaníu og Makedóníu. Ef frá eru taldar umsóknir frá ríkisborgurum landanna tveggja var fjöldi umsókna tvisvar sinnum meiri árið 2016 (433) en árið 2015 (219).

73% umsækjenda voru karlkyns og 27% konur. 76% umsækjenda voru fullorðnir og 24% börn. Umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum voru átján,“ segir í tilkynningunni.

Einnig segir að á síðasta ári hafi stoðdeild Ríkislögreglustjóra fylgt 313 einstaklingum úr landi. 44 einstaklingar til viðbótar yfirgáfu landið sjálfviljugir með stuðningi Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) og 89 með beinum stuðningi frá Útlendingastofnun.

Nánar má lesa um málið á heimasíðu Útlendingastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×