Sport

Tvöfaldur íslenskur sigur í undankeppni heimsleikana í krossfit | Fjögur fóru áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir. Vísir/Daníel
Íslensku keppendurnir stóðu sig frábærlega í undankeppni Evrópu fyrir heimsleikana í krossfit sem fara fram i Bandaríkjunum í sumar. Undankeppnin fór fram um helgina í Madríd á Spáni og stóð Íslendingur uppi sem sigurvegari í bæði karla- og kvennaflokki.

Enginn stóð sig betur en þau Björgvin Karl Guðmundsson og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sem sýndu að þau eru í frábæru formi og klár í að gera enn betur á heimsleikunum en í fyrra þegar þau komust bæði á pall, Ragnheiður Sara varð þá önnur en Björgvin Karl þriðji.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir fagnaði sigri í kvennaflokknum eftir harða baráttu við löndu sína Annie Mist Þórisdóttur. Ragnheiður Sara fékk á endanum 650 stig eða aðeins 10 stigum meira en Annie Mist.

Þuríður Erla Helgadóttir varð síðan í fimmta sæti með 551 stig og var næstum því hundrað stigum á undan þeirri í sjötta sæti. Fimm efstu tryggðu sér allar sæti á Heimsleikunum í Kaliforníu sem fara fram seinna í sumar.

Katrín Tanja Davíðsdóttir vann heimsleikana í fyrra eftir mikla baráttu við Ragnheiði Söru Sigmundsdóttur en Annie Mist hefur unnið þá tvisvar sinnum og er sú eina sem hefur afrekað það.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir vann tvær af greinunum sjö, varð í öðru sæti í tveimur greinum og síðan í þriðja sætinu í tveimur síðustu. Sara vann inn á topp þrjú í sex af sjö greinum.

Annie Mist Þórisdóttir vann eina grein, varð í öðru sæti í þremur greinum og í þriðja sæti í tveimur greinum. Þær tvær voru meðal efstu þriggja í sex af sjö greinum keppninnar sem er mögnuð staðreynd.

Þuríður Erla Helgadóttir vann síðan eina grein sem þýðir að íslensku stelpurnar unnu fjórar af sjö greinum mótsins þar af voru þær í efstu tveimur sætunum í fyrstu þremur greinunum.

Kristin Holte sem varð í þriðja sæti í heildarstigakeppninni vann eina grein og Samantha Briggs, sem varð fjórða, vann tvær greinar.

Björgvin Karl Guðmundsson vann sannfærandi sigur í karlaflokki en hann fékk 528 stig eða 73 stigum meira en næsti maður. Sigurður Hafsteinn Jónsson varð í 11. sæti með 326 stig.

Björgvin Karl gaf tóninn með því að vinna fyrstu tvær greinarnar en hann varð síðan í öðru sæti í tveimur greinum og í þriðja sæti í einni grein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×