Innlent

Tryggvi Þór lofaði ríkisábyrgð á Icesave

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. MYND/Anton Brink

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lýsti því yfir að íslenska ríkið myndi standa við skuldbindingar sínar vegna breskra innistæðueigenda í samtali við fréttastofu BBC, sem birti frétt um málið þann 6. október 2008. Þá voru liðnir nokkrir dagar frá því að ríkið yfirtók Glitni, og órói hafði gripið um sig meðal innistæðueigenda Landsbankans og Kaupþings erlendis.

Í frétt BBC kemur fram að hinn íslenski tryggingasjóður innistæðueigenda ábyrgist fyrstu 20.000 evrur á hverjum reikningi, en sá breski ábyrgist afganginn upp að ákveðnu marki.

Svo virðist sem Tryggvi hafi staðfest vilja stjórnvalda til að standa við það fyrirkomulag ef fleiri bankar myndu lenda í vandræðum. Tryggvi gegndi þá starfi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra.

"Við erum hlutaðeigendur að Evrópskum reglugerðum um innistæðutryggingar og við erum bundin af alþjóðalögum," sagði Tryggvi við BBC, en vildi þó ekki meina að Ísland væri í slíkum vandræðum.

"[Bankarnir] hafa ekki tekið þátt í undirmálslánastarfsemi, eða kaupum á erlendum veðskuldabréfum, og við erum nokkuð viss um að efnahagsreikningarnir séu heilbrigðir og að rekstur bankanna verði heilbrigður áfram," er jafnframt haft eftir Tryggva í fréttinni.

Daginn eftir að fréttin birtist tók íslenska ríkið Landsbankann yfir.

Tryggvi sagði í samtali við mbl.is á þriðjudag að hann væri sleginn yfir þeim háu fjárhæðum sem falla myndu á innlánstryggingasjóð og að stjórnarliðar hefðu verið blekktir til stuðnings við Icesave samkomulagið með Potemkin tjöldum. Hann sagðist jafnfram ekki munu greiða samningnum atkvæði í núverandi mynd og taldi ekki fimmhundruð milljarða virði að halda Alþjóðagjaldeyrissjónum og Evrópusambandinu góðum.

Frétt BBC frá 6. október má sjá hér.

 









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×